Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Gagnrýna harðlega fjármálastjórn Reykjanesbæjar
Föstudagur 14. desember 2012 kl. 19:33

Gagnrýna harðlega fjármálastjórn Reykjanesbæjar

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa sent frá sér bókun sína vegna fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar 2013 sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi  í dag, 14. desember 2012.

„Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrið árið 2012 bar með sér að skuldavandi sveitarfélagsins var orðinn það mikill að meirihluti sjálfstæðismanna stefndi í nýjar hæðir í sölu eigna Reykjanesbæjar á árinu. Fjárhagsáætlun sjálfstæðismanna fyrir árið 2012 einkenndist af tvennu,  sölu eigna fyrir um tæpa 8 milljarða og yfirtöku eigna Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. Eins og oft áður þá gengu áætlanir sjálfstæðismanna ekki eftir.

Fjárhagsáætlun sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ 2013 einkennist enn eitt árið af sömu óvissuþáttunum er lúta að eignasölu og yfirfærslu eigna.  Það er algjörlega óásættanlegt að fjármagnsliðir skuli enn og aftur vera í talsverði óvissu. Ef áætlunin skyldi aldrei þessu vant ganga að fullu eftir má gera ráð fyrir að skuldir bæjarsjóðs verði um 20 milljarðar að eignasölu meirihlutans lokinni en það dugar samt ekki til þess að daglegur rekstur sveitarfélagsins nái jafnvægi.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2013 ber keim af erfiðleikum og þröngri stöðu í fjármálum sveitarfélagsins. Lítið svigrúm er til framkvæmda, á flestum sviðum er komið að ystu brún og enn þrengir að. Skuldir sveitarfélagsins hafa lækkað  nokkuð en ekki nægjanlega til að koma skuldahlutfalli niður fyrir 230%.  Rekstur bæjarsjóðs er enn þungur og verður svo næstu árin. Áætlunin gerir ráð fyrir að afkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 7% árið 2013 sem er ekki er nægjanlegt til að standa undir fjárskuldbindingum bæjarins.

Fjárhagsáætlunin gerir heldur ekki ráð fyrir lækkun skulda samrekinna fyrirtækja eins og hjá DS, BS og Kölku né heldur væntanlegum framkvæmdum við nýtt tjaldstæði bæjarfélagsins. Rekstur B-hluta fyrirtækja er þó sínu verri og hallarekstur verða viðvarandi áfram. Staða Reykjaneshafnar er sérstaklega erfið og ljóst að þar mun Reykjanesbær þurfa að leggja til fé jafnvel á næsta ári ef áætlanir um álver standast. Fasteignir Reykjanesbæjar eru í slæmri stöðu og það er ljóst að fjármagna þarf hallarekstur fyrri ára en ekki er gert ráð fyrir því í þessari fjárhagsáætlun fyrir árið 2013.

Samfylkingin hefur undanfarin ár gagnrýnt harðlega fjármálastjórn meirihluta sjálfstæðismanna. Varað við þeim afleiðingum er slík óstjórn kynni að hafa um leið og lagðar hafa verið fram tillögur er afstýrt hefði mögum þeirra vandamála er hvað þyngst hvíla á rekstri bæjarsjóðs nú. Nægir þar að nefna málefni Reykjaneshafna, sölu bæjarins á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja og gengdarlausar fasteignabyggingar í skjóli Fasteignar ehf. sem nú er komin að fótum fram. Meirihlutar sjálfstæðismanna hafa valið að fara sínu fram og  hlusta ekki. Niðurstaðan er öllum ljós í fjárhagsáætlun þeirri er hér er lögð fram. Það mun taka íbúa Reykjanesbæjar áratugi að greiða niður þær skuldir er sjálfstæðismenn hafa stofnað til. Sú ábyrgð er mikil að hafa tekið stefnu flokksins fram yfir hagsmuni bæjarbúa.

Annað árið í röð leggja bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram tillögur að breytingum á einstökum liðum fjárhagsáætlunar þar sem lagt er m.a. til að Reykjanesbær lækki styrki til stjórnmálaflokka og minnki framlag til kynningarmála, auki framlag til atvinnuátaks og að auknu fé verði varið til barna- og ungmennastarfs – einnig að fé verði veitt til stefnumótunar í ferðaþjónustu - ört vaxandi atvinnugrein á Suðurnesjum“.

Friðjón Einarsson
Eysteinn Eyjólfsson
Hjörtur M Guðbjartsson

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024