Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 3. janúar 2003 kl. 09:50

Fyrsti Kall ársins

GLEÐILEGT ÁR og takk fyrir það liðna kæru Suðurnesjamenn. Nú er nýtt ár hafið, ár sem verður án efa spennandi á margan hátt. Það eru nefnilega að koma kosningar. Nú farið þið að sjá þingmenn á þönum um Suðurnes sem lofa öllu fögru, taka í hönd allra og smjaðrandi fyrir þeim sem þeir ná ekki að snerta. Skemmtilegur tími ekki satt?HRINGIÐA stjórnmálanna snertir alla. Alþingismenn, jafn misjafnir og þeir eru margir, setja lögin sem við lifum eftir í þessu landi. Það skiptir því máli að þeir menn sem VIÐ veljum til forystu í þessu landi séu þess verðir og endurspegli þær skoðanir sem VIÐ höfum. Þess vegna skulum VIÐ kjósa rétt, eftir eigin sannfæringu, án þess að láta smjaður og fögur loforð hafa áhrif á okkur. VIÐ skulum meta verk þeirra manna sem bjóða sig fram og kjósa eftir því. Á fjögurra ára fresti fáum við völd sem við skulum nota.

DAVÍÐ ODDSSON sýndi það í hinni árlegu Kryddsíld á Stöð 2 á gamlársdag að hann er búinn að sitja of lengi sem forsætisráðherra. Með handapati og pirringi skammaði hann Össur litla fyrir það að Ingibjörg Sólrún hætti sem borgarstjóri. Þó að Davíð hafi leikið Bubba Kóng í Herranótt fyrir mörgum árum og staðið sig vel, þá sáu sjónvarpsáhorfendur að hann hefur misst sjarmann sem leikari, jafnvel þó hann sé búinn að leika á hinu stóra pólitíska leiksviði sl. 20 og eitthvað ár. Við skulum gera hlé á hans leik og leyfa honum aðeins að hvíla sig.

ÁRIÐ 2002 var fyrir margra hluta sakir merkilegt ár. Við fengum góðan bæjarstjóra sem reyndar á eftir að sanna sig, en hefur komið sterkur inn sem stjórnandi í bæjarfélaginu. Við sáum Sjálfstæðismenn ýta Kristjáni Pálssyni út af þingi og Guð einn veit hvað Kristján gerir í kjölfarið, en eitt er víst að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Við sáum bæjarfulltrúa Sandgerðis brosa út í annað, reynandi að bjarga bæjarfélaginu og smjaðrandi um það við íbúa Sandgerðis að allt væri í stakasta lagi. Við upplifðum einstaka Ljósanótt. Við héldum áfram að sjá kvótann fara af Suðurnesjum og sjávarútvegsráðherra brosa og segja að ekkert væri að. Já við sáum margt og lærðum mikið.

LÆKNADEILAN fylgir okkur inn í nýja árið - draugur fortíðar. Nú verða þingmenn, sveitarstjórnarmenn, Verkalýðsfélög, stofnanir og íbúar Suðurnesja að leggjast á eitt um að þrýsta á lausn deilunnar. Ef verkföll þarf til, þá förum við í verkföll. Ef undirskriftalista þarf til, þá skrifum við undir. Það verður að gera eitthvað því ekki ætlar hin reykvíska framkvæmdastýra HSS eða heilbrigðisráðherra að leysa vandann. Sýnum hvers við erum megnug og hættum að láta hafa okkur að fíflum.

Í BYRJUN nýs spennandi árs vill Kallinn á kassanum hvetja íbúa Suðurnesja til að senda póst á netfangið [email protected] og hvetja Kallinn til að taka á skemmtilegum málum. Það margborgar sig.

Kveðja, Kallinn

Kallinn á kassanum er ekki starfsmaður Víkurfrétta, heldur sjálfstæður pistlahöfundur. Þær skoðanir sem fram koma hjá Kallinum á kassanum þurfa ekki að endurspegla skoðanir ritstjórnar Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024