Fyrst og fremst landsbyggðarmaður
Efnahagsmál
Allt of fáir draga vagninn hér á landi og er svo komið að innan við 40% íbúa standa undir nettósamneyslunni. Ég efast um að við getum, án frekari skattahækkana, lengur staðið undir því velferðarkerfi sem okkur er orðið tamt og hugnast að viðhalda.
Það er því mín skoðun að við eigum að leggja niður myntina í þeirri mynd sem hún er og eingöngu styðjast við rafrænan gjaldmiðil.
Nú þegar eru um 70% allra viðskipta í landinu rafræn og kerfinu sem slíku engin vanbúnaður á að taka við því sem út af stendur. Þetta mun stækka skattstofninn, sennilega sem mismuninum þar á nemur.
Fjármál heimila
Ekki verður hjá öðru komist en fjalla um þá erfiðu stöðu sem mörg heimili eru í og móta stefnu í þeim efnum. Stefnu sem hægt er að standa við og kemur ekki aftur í bakið á fólki í gegnum skattakerfið. Þetta er það mál sem brennur hvað mest á almenningi í dag. Það verður að koma til móts við þá fjölmörgu sem tóku innlend lán til fasteignakaupa og sitja nú uppi með mikla hækkun þeirra og víða í Suðurkjördæmi enn meiri lækkun á fasteignaverði.
Það er í raun algjör hneisa að nú, fjórum árum eftir hrun, skuli enn ekki vera búið að móta heildstæða stefnu í þessum málum. Því er það mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn móti ábyrga stefnu í þeim efnum, stefnu sem hægt er að standa við og framkvæma, án þess að hækka skatta enn frekar til að fjármagna hugsanlega lausn í þeim efnum.
Byggðamál
Það dylst varla nokkrum manni að byggðamál á Íslandi eru komin í ógöngur. Víða fækkar fólki og er þörfin brýnni en nokkru sinni að móta heildstæða byggðastefnu.
Byggðastefnu sem hægt er að byggja á til framtíðar. Skilgreina þarf landið út frá þeim kostnaði sem af því hlýst fyrir fólk að nýta sameiginlega þjónustu. Fjölbreyttara atvinnulíf er það sem til þarf svo byggð megi þrífast á jaðarbyggðum. Ekki á að hika við að færa ýmis verkefni og fjarþjónustu út á land, verði því við komið. Ganga þarf frá Landeyjarhöfn í eitt skipti fyrir öll, svo hún nýtist þeim sem erindi eiga allan ársins hring.
Sjávarútvegsmál
Framkomið og samþykkt lagafrumvarp um veiðileyfagjald er síðasti naglinn í líkkistu landsbyggðarinnar. Sem betur fer hefur útgerðum víða um land tekist að lifa af miklar hræringar í sjávarútvegi og endalausan niðurskurð aflaheimilda, allar götur síðan 1984.
Þær útgerðir sem enn tóra eru nú hryggjarstykkið í bæjarfélögunum. Ef fer sem horfir þá mun mörgum þessara útgerða blæða út og þær annað hvort verða sameinaðar eða seldar annað, nú eða þær hreinlega fara í þrot.
Með öllum tiltækum ráðum virðist reynt að koma þeirri framlegð sem þessi fyrirtæki skapa á suðvesturhorn landsins þar sem hún nýtist einkum þeim er þar búa fyrir.
Þessari öfugþróun verður að vinda ofan af, enda álagt auka veiðileyfagjald mikil blóðtaka fyrir landsbyggðina og ekki síst Suðurkjördæmi.
Atvinnumál almennt
Koma þarf hjólum atvinnulífsins af stað aftur, sér í lagi hér í Suðurkjördæmi.
Má þar nefna álversframkvæmdir í Helguvík, flutning Landhelgisgæslunnar og innanlandsflugið á Suðurnes, bættar samgöngur og endurskoðun álagðs virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Undir þennan lið heyrir náttúrulega það sem hér að framan er sagt um sjávarútvegsmál. Eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar er að koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur og þar með renna styrkari stoðum undir efnahag fólks og möguleika þess til mannsæmandi framfærslu.
Öryggismál
Ég held að fullyrða megi að flestir eru búnir að fá nóg af umfjöllun um erlendar og innlendar glæpaklíkur sem vaða uppi og virðast eiga allan rétt á kostnað fórnarlambanna.
Við svo verður ekki búið lengur og tel ég brýna þörf á að styrkja innviði löggæslunnar og efla hana til muna með t.d. forvirkum rannsóknarheimildum og fjölgun lögreglumanna.
Að lokum:
Ég hef nánast allan minn starfsaldur unnið störf tengd sjávarútvegi, bæði til lands og sjávar. Undanfarin 10-15 ár sem skipa- fyrirtækja- og fasteignasali. Setið í stjórn sjávarútvegsfyrirtækis, í sveitarstjórn og með ólæknandi áhuga á pólitískri umræðu almennt. En fyrst og fremst er ég landsbyggðarmaður sem trúir á skynsemi þess að viðhalda byggð í landinu öllu. Sem þingmaður fyrir Suðurkjördæmi mun ég ekki samþykkja nein lög frá Alþingi, ef minnsti litli grunur leikur á að þau koma sér illa fyrir dreifbýlið. Ég er harður andstæðingur þess að við göngum inn í Evrópusambandið af þeirri ástæðu einni að rödd okkar mun ekki heyrast í risavöxnum salarkynnum Brüssel-valdsins. Ekki frekar en rödd landsbyggðarinnar hefur náð inn í sali Alþingis, þrátt fyrir meint óréttlátt vægi atkvæða.
Reynir Þorsteinsson,
sækist eftir 2. - 4. sæti í
prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.