Fyrirmyndarnemendur í fyrirmyndarferðalag
Fyrirmyndarnemendur Njarðvíkurskóla skólaárið 2006-2007 hafa verið valdir. Í ár voru valdir tveir nemendur úr hverjum bekk sem hafa skarað fram úr í stundvísi og metnaði. Farið var í óvissuferð með fyrirmyndarnemendurna í dag, miðvikudaginn 14. mars. SBK skipulagði ferðina fyrir okkur og ókum við sem leið lá í gegnum Garðinn og út í Sandgerði.
Reynir Sveinsson umsjónarmaður Háskólaseturs Suðurnesja í Sandgerði, tók á móti okkur og leiddi okkur um sýninguna, Heimskautin heilla. Þetta er sýning um ævi og starf heimskautafarans, leiðangursstjórans og læknisins Jean-Baptise Charcot.
Sýningin er fróðleg og skemmtileg þar sem nemendur sáu m.a. hluti sem menn höfðu með sér í leiðangrana, sýni sem þeir tóku, og aðstæðurn sem þeir bjuggu við.
Stýrið og kompásinn vakti mikla athygli yngri nemendanna og margir stöldruðu við kvikmyndasýningu úr leiðangri til Suðurskautslandsins. Út um kýraugu sáum við myndir af brimi en á stafni safnsins horfðum við beint út á sjó í tilkomumikið, raunverulegt brimið. Við skoðuðum líka Fræðasetrið sem hefur alltaf jafnmikið aðdráttarafl fyrir nemendur.
Rostungurinn laðaði krakkana að sér og var mikð spáð í þessa stóru skepnu sem þó var aðeins hálfvaxinn þegar hann var fangaður.
Ferðinni lauk svo með pizzuveislu á veitingahúsinu Mamma Mia. Við þökkum starfsfólki Fræðasetursins kærlega fyrir móttökurnar og SBK fyrir skipulagninguna.