Fyrirmyndardagurinn 2018

Við viljum flest eiga eitthvað hlutverk í samfélaginu. Það getur verið erfitt fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu að komast að á hinum almenna vinnumarkaði.

Fyrirmyndardagur Vinnumálastofnunar hefur verið haldinn árlega síðan árið 2014. Þann dag notum við hjá Vinnumálastofnun til þess að vekja athygli á atvinnumálum fatlaðra og þörfinni á því að atvinnuleitendur með skerta starfsgetu fái aukin tækifæri hér á Suðurnesjum. Þátttaka atvinnurekenda á fyrirmyndardaginn felst í því að bjóða til sín atvinnuleitanda með skerta starfsgetu í einn dag eða dagpart. Með því fá gestastarfsmenn innsýn í fjölbreytt störf og starfsmenn fyrirtækja kynnast styrkleikum atvinnuleitenda með skerta starfsgetu.

Fyrirmyndardagur Vinnumálastofnunar verður haldinn um allt land þann 5. október næstkomandi. Ef þú hefur áhuga á að taka þátt eða einhverjar spurningar varðandi verkefnið ekki hika við að hafa samband við þjónustuskrifstofur Vinnumálastofnunar.

Ég vil því biðla til fyrirtækja hér á Suðurnesjum að gefa fleiri einstaklingum með skerta starfsgetu tækifæri, skoða starfsemi sína og meta hvort að það séu til verkefni sem myndu passa fyrir einstakling með skerta starfsgetu. Um er að ræða allar gerðir af störfum, allt frá hlutastörfum yfir í heilsdagsstörf. Vinnumálastofnun getur miðlað mjög fjölbreyttum hópi fólks sem allir hafa sína styrkleika.

Þegar fyrirtæki ráða til sín einstaklinga með skerta starfsgetu er yfirleitt möguleiki á að gera vinnusamning öryrkja. Í honum felst endurgreiðsla á launum og launatengdum gjöldum. Slíkur samningur er til þess gerður að auðvelda einstaklingum sem eru á örorkulífeyri, örorkustyrk eða endurhæfingarlífeyri, að komast á almennan vinnumarkað. Vinnusamningur öryrkja felst meðal annars í 75% endurgreiðslu launa og launatengdra gjalda í tvö ár.

Að lokum hvet ég forsvarsmenn fyrirtækja að hafa samband og fá nánari upplýsingar um fyrirmyndardaginn og vinnusamninga öryrkja.

Sigrún Bjarglind Valdimarsdóttir
Atvinnuráðgjafi hjá Vinnumálastofnun