Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fyrirhuguð breyting á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020–2035
Föstudagur 28. janúar 2022 kl. 10:42

Fyrirhuguð breyting á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020–2035

Á forsíðu Víkurfrétta 19. janúar var með stóru letri skrifað: „Bæjarstjórnin vill ekki kísilverið aftur.“ Allir bæjarfulltrúar eru sem sagt komnir í lið með okkur sem viljum ekki að kísilver Arion banka/Stakksbergs í Helguvík verði ræst að nýju. Með sérstakri bókun allra flokka í bæjarstjórn á bæjarstjórnarfundi 18. janúar síðastliðinn var skorað á Arion banka að falla frá áformum um endurræsingu kísilversins í Helguvík.

Hefur bókun bæjarstjórnar einhver áhrif?

Betur má ef duga skal. Bókunin virðist engin áhrif hafa á áform Arion banka. Þeir eru farnir að leita til þjónustufyrirtækja og iðnaðarmanna á svæðinu um viðskipti og frekari uppbyggingar áform. Eitt þjónustufyrirtæki neitaði þeim í síðustu viku á þeim forsendum að eigendurnir vilji ekki að kísilverið verði endurræst. Húsasmíðameistari sem heyrði af þessu sagði að sitt verktakafyrirtæki myndi hafna hverskonar verkbeiðnum frá þeim með sömu rökum.

Hvað er til ráða?

Getur bæjarstjórnin gert eitthvað fleira en samþykkja sérstaka bókun? Bæði samþykktir sveitarfélaga og aðalskipulag eru svokallaðar „stjórnsýsluákvarðanir“ sem hafa bindandi lagalegt gildi. Þannig t.d. bannar eða heimilar bæjarstjórn Akureyrar með stjórnsýsluákvörðun kattahald í bænum og vínveitingar á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í Reykjanesbæ er um miklu alvarlegra mál að ræða. Málið snýst um loftgæði  (andrúmsloftið) og heilsufar íbúa til frambúðar. Losun á t.d. brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisoxíð og rokgjörnum lífrænum efnasamböndum (VOC) eru af fenginni reynslu hættuleg og óásættanleg fyrir bæjarbúa. 

Í matsskýrslu Stakksbergs segir um loftgæðin: „Ekki sé þó hægt að útiloka að lykt muni í einhverjum tilfellum finnast í nágrenni við verksmiðjuna ...,“ og „Áhrif á loftgæði eru metin nokkuð neikvæð vegna reksturs verksmiðju Stakksbergs.“ Hjá Skipulagsstofnun er ályktað svo: „Skipulagsstofnun telur að gera megi ráð fyrir að íbúar verði varir við lykt en aftur á móti er óvissa um styrk hennar, sér í lagi við einstaka veðurskilyrði. Skipulagsstofnun telur að áhrif fullrar framleiðslu á loftgæði geti verið talsvert neikvæð.“ 

Nægir að setja inn orðalag í aðalskipulag sem með skýrum hætti tiltekur að loftgæði í íbúðahverfi megi alls ekki dvína?

Í reglugerð 920/2016 er í II kafla, 5. gr. fjallað um meginreglur, þ.e. um mat á loftgæðum, stjórnun loftgæða o.fl. Í 3. málsgrein segir: „Sveitarfélögum er heimilt að setja sér samþykktir þar sem gerðar eru ítarlegri kröfur en reglugerð þessi segir til um í því skyni að vinna gegn loftmengun og skaða af hennar völdum og viðhalda góðum loftgæðum.“ Í fyrstu málsgrein segir: „Halda skal loftmengun í lágmarki og viðhalda þeim gæðum sem felast í hreinu og ómenguðu lofti.“ 

Í aðalskipulagi Reykjanesbæjar er sérstakur kafli um iðnaðarsvæðið í Helguvík (I1). Ljóst er að vegna nálægðar við íbúðarbyggð og ríkjandi vindátta þarf sérstaklega að huga að  loftmengun frá svæðinu og skoða vel hvort setja eigi ítarlegri kröfur um loftgæði en lög og reglugerð segja til um. Kaflinn um iðnaðarsvæðið í Helguvík gerir ekki ráð fyrir starfsemi í núgildandi aðalskipulagi, sem eykur meira en nú er á losun flúors og brennisteinsdíoxíðs. Samkvæmt orðanna hljóðan er hér átt við starfsemi sem fer í ferli hjá Skipulagsstofnun eftir gildistöku aðalskipulags 2015-2030, og bíður leyfis til að hefja rekstur. Í nýjum drögum að aðalskipulagi er umrædd málsgrein feld út, í stað þess að setja inn orðalag sem með skýrum hætti kemur í veg fyrir að stórar mengandi verksmiðjur, sbr. álver og kísilver hefji starfsemi hér eftir í Helguvík.

Reykjanesbæ 24. janúar 2022,
Tómas Láruson.