Fyrir okkur öll
Framundan eru örlagadagar í lífi þjóðarinnar. Kosningarnar á laugardaginn eru kannski þær mikilvægustu frá upphafi. Kosningar - sem snúast um hverjum við treystum til að verja heimilin og fyrirtækin í landinu. Kosningar - þar sem lagðar eru línur til næstu ára hvernig við ætlum að vinna okkur út úr vandanum sem þjóð.
Framsóknarflokkurinn hefur einn flokka lagt fram heildstæðar tillögur um lausnir á efnahagsvandanum. Lækkun höfuðstóls lána um 20% er almenn aðgerð sem virkar strax. Það er jafnræðisaðgerð þar sem allir skuldarar sitja við sama borð. Það er nauðsynlegt að stækka þann hóp sem getur greitt. Þannig léttist byrði hvers og eins.
Framsóknarflokkurinn er atvinnumálaflokkur, talsmaður landbúnaðar og sjávarútvegs og útvörður landsbyggðarinnar. Mikilvægt er að tryggja sátt um sjávarútveginn en það er sú atvinnugrein sem mun verða hvað mikilvægust við að leiða okkur fram til bjartari tíma. Því ber að forðast að innkalla aflaheimildir sem gætu orðið greininni til tjóns á þeim tíma sem Íslendingar þurfa hvað mest á henni að halda.
Þegar á reynir er Framsóknarflokkurinn kletturinn í hafinu. Aldrei er meiri þörf en nú fyrir trausta talsmenn uppbyggingar atvinnulífs, talsmenn endurreisnar Íslands. Þegar á reynir snúast verkefnin um hugrekki, staðfestu, þekkingu og heiðarleika.
Ég hvet alla til að fara á kjörstað og nota atkvæði sitt. Á þann hátt höfum við öll áhrif.
Ég bið um ykkar stuðning, í kosningunum á laugardag. Stuðning til að verjast, stuðning til að sækja fram – fyrir landið og þjóðina, fyrir okkur öll.
Sigurður Ingi Jóhannsson oddviti Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi