Fyrir fjölskyldurnar í bænum
- Aðsend grein frá Guðbrandi Einarssyni
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur nú til umræðu fjárhagsáætlun næsta árs og mun hún vera tekin til seinni umræðu þann 6. desember næstkomandi. Fyrir liggur að hagur sveitarfélagsins er að vænkast og vegur þyngst að atvinnuleysi er nánast horfið af svæðinu og er það vel. Núverandi meirihluti setti sér ákveðin markmið við upphaf þessa kjörtímabils. Eitt var að ná tökum á fjármálum bæjarins og til þess að ná því markmiði hefur þurft að gæta verulegs aðhalds í rekstri. Núverandi meirihluti setti sér einnig annað markmið en það var að reyna að koma í veg fyrir að fjölskyldur með börn finndu mikið fyrir þessu aðhaldi sem grípa þyrfti til. Og þannig hefur verið unnið. Gjaldskrár þar sem sem börn koma við sögu hafa hækkað minna en aðrar gjaldskrár og við höfum reynt að bæta í þar sem það hefur verið unnt.
Í nýrri fjárhagsáætlun mun þessari stefnu áfram verða fylgt. Þegar núverandi meirhluti tók við, við afar erfiðar fjárhagsaðstæður var ákveðið að hækka hvatagreiðslur til barna úr því að vera 7.000 krónur í 15.000 krónur. Nú er ætlunin að gera enn betur og hækka hvatagreiðslur í 21.000 krónur. Til viðbótar leggur núverandi meirihluti til að afsláttarkjör flæði milli skólastiga. Það kemur foreldrum til góða sem eiga til dæmis barn í leikskóla og annað í skóla. Þannig ætlar núverandi meirihluti að vinna út þetta kjörtímabil. Koma böndum á fjárhag sveitarfélagsins en hlúa um leið að barnafjölskyldunum í bænum eins og kostur er.
Guðbrandur Einarsson
forseti bæjarstjórnar
og oddviti Beinnar leiðar