Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 23. mars 2004 kl. 14:37

Fúskari eða fagmaður?

Framundan er vorið og sumarið sem hjá mörgum er tími framkvæmda heima við. Mála þarf húsið, setja upp skjólgirðingar eða palla, skipta um járn á þökum, skipta um glugga eða gler o.fl.. Einnig þarfnast fasteignir viðhalds og endurbóta innandyra. Undanfarin misseri hefur verið mikið að gera hjá iðnaðarmönnum í byggingariðnaði og þeir vart komist yfir öll þau verkefni sem óskað hefur verið eftir að þeir sinni. Í slíku árferði virðast sífellt koma fram aðilar sem ætla sér að græða á ástandinu, aðilar sem gefa sig út fyrir að vera iðnaðarmenn og auglýsa sig sem slíka en þegar betur er að gáð reynast með öllu án réttinda til að sinna störfum í löggiltum iðngreinum. Slíka menn kjósum við að nefna fúskara. Þær iðngreinar sem átt er við eru í flestum tilfellum málaraiðn, pípulagnir og húsasmíði auk fleiri iðngreina.
Iðnsveinafélag Suðurnesja hefur ekki farið varhluta að þessu ástandi. Fjölmörg tilfelli hafa komið inn á borð félagsins þar sem fólk hefur orðið fyrir barðinu á fúskurum sem tekið hafa að sér viðhaldsvinnu og endurbætur.

Nauðsynlegt er að benda einstaklingum og ekki síður húsfélögum á að kanna bakgrunn viðkomandi aðila sem þeir hyggjast ráða til sín til að sinna iðnaðarstörfum. Við höfum séð allt of mörg dæmi um slæleg vinnubrögð og ófullnægjandi frágang verka. Nokkur þeirra tilfella eru með algerum ólíkindum og raunar miklar sorgarsögur. Í flestum þeim tilfellum þar sem fólk hefur haft samband við ISFS vegna samskipta við fúskara, er um að ræða verulegt fjárhagstjón vegna rangrar efnismeðhöndlunar, efnisnotkunar eða hreinlega rangra vinnubragða. Tjón vegna þessa hafa oft hlaupið á hundruðum þúsunda og jafnvel milljónum. Það er verulega dapurlegt að horfast í augu við fólk sem hefur lent í þessum fúskurum og er fólk í flestum tilfellum varnarlítið og verður að bera tjónakostnaðinn sjálft því fúskarinn er fljótur að láta sig hverfa ef vandræði koma upp. Í mörgum tilfellum hefur fólk leitað tilboða í verkþætti og þá hefur fúskarinn gjarnan tilgreint hagstætt verð sem fólk hefur látið glepjast af. En þegar verkið er hafið byrja vandamálin. Fúskarinn vill fá greitt inná og hefur í mörgum tilfellum fengið megnið af því sem hann á að fá löngu áður en verki lýkur og þá látið sig hverfa
Við hvetjum fólk til að velja fagmenn í stað fúskara – það er ódýrara þegar upp er staðið.


Sigfús R. Eysteinsson
formaður Iðnsveinafélags Suðurnesja
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024