Furðuleg yfirlýsing náttúruverndarsamtaka
Yfirlýsing samtaka áhugafólks um náttúruvernd, sem lýsa vanþóknun á hvatningu Suðurnesjamanna til þeirra sem vilja skapa atvinnu á Íslandi, er furðuleg og til marks um hve litlu sannleikurinn virðist skipta þetta ágæta fólk. Boðskapur hópsins á Suðurnesjum, sem hefur staðið fyrir þessum hvatningarauglýsingum, hefur einfaldlega verið að lýsa stuðningi við skoðanir Samtaka atvinnulífsins, ASÍ, sveitarfélaga og framkvæmdaaðila. Þar er um að ræða sveitarfélög og samtök yfir 100 þúsund Íslendinga.
Náttúruverndarsamtökin tiltaka nokkur atriði sérstaklega máli sínu til stuðnings. Þar rekur hver staðleysan aðra:
1. fullyrðing: “Álverið myndi taka til sín nær alla háhitaorku sem fyrirséð er að aflað verði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, auk virkjana í neðri Þjórsá”.
Þetta er rangt. Sýnt hefur verið fram á að til reiðu verða að minnsta kosti 700-800 megawött á Suð-Vesturlandi umfram hámarksnotkun álversins.
Þessu til stuðnings má m.a. benda á málflutning vísindamanna á Opnum fundi um Sjálfbæra nýtingu jarðhitans 21. október sl. sem voru algerlega ósammála staðhæfingum Sigmundar Einarssonar, jarðfræðings um yfirvofandi orkuskort. Það mætti halda að hann hafi tekið að sér hlutverk áróðursmeistara Vinstri-grænna í málflutningi sínum.
2. fullyrðing: “Jarðvarmavirkjanir, sem álverið þarf, mundu auka á brennisteinsmengun á höfuðborgarsvæðinu en hún fer nú þegar yfir heilbrigðismörk við ákveðnar aðstæður.”
Þetta er rangt. T.d. er gert ráð fyrir að brennisteinslosun vegna Hverahlíðarvirkjunar verði skilin út áður en gufa verður losuð út í andrúmsloftið.
3. fullyrðing: “Línulagnir hefðu víða áhrif, m.a. á vatnsverndarsvæði höfuðborgarbúa.”
Áhrif á vatnsverndarsvæði eru afar ólíkleg og nánast engin hætta á þeim auk þess sem gerðar verða ýtrustu varúðarráðstafanir. Líklega stafar vatnsbólum meiri hætta af umferð um Suðurlandsveg og áformaðri framkvæmd við tvöföldun hans. Munu þessi náttúrverndarsamtök leggjast gegn tvöföldun Suðurlandsvegar á sömu forsendum eða jafnvel leggja til að umferð um hann verði stöðvuð?
4. fullyrðing: “Með Urriðafossvirkjun væri framtíð eins stærsta villta laxastofns Íslands stefnt í voða - en sá stofn býr í Þjórsá.”
Þeir sem hafa kynnt sér málið vita mæta vel að gripið verður til aðgerða til að vernda laxastofn Þjórsár þegar Urriðafossvirkjun verður byggð og rekin. Sumum virðist henta betur að hafa uppi inntaksrýr gífuryrði en að beita staðreyndum.
5. fullyrðing: “Krafa fyrirtækja á Suðurnesjum um orku til álvers í Helguvík er á við heila Kárahnjúkavirkjun á 100% láni á ábyrgð orkufyrirtækja í eigu þjóðarinnar.”
HS Orka, sem mun afla stórs hluta orkunnar fyrir álverið í Helguvík, er í meirihlutaeigu einkaaðila. Slíkt eignarhald hefur verið gagnrýnt harðlega af sömu náttúrverndarsamtökum og því orkar tvímælis hvort aðilar sem verða uppvísir að slíkum tvískinnungi geti talist trúverðugir.
Ákvörðun umhverfisráðherra, sem ógilti lögmætan úrskurð Skipulagsstofnunar um S-V línur, var pólitísk og tekin þremur mánuðum eftir að löggiltur frestur rann út til slíkrar ákvörðunartöku.
Spurningin er því miklu fremur sú hvort samtök áhugafólks um náttúruvernd séu aðbeita sér eða láta beita sér í pólitískum tilgangi.
Hvatningarauglýsingar fyrirtækja á Suðurnesjum hljóða svo: “Við styðjum baráttu samtaka atvinnulífsins og verkalýðsfélagana, við umhverfisráðherra, um lagningu suðvesturlínu til atvinnusköpunar á Suðurnesjum.” Að kalla þessa stuðningsyfirlýsingu ábyrgðarlausa og ómálefnalega er beinlínis hlægilegt í ljósi þess virðingarleysis fyrir staðreyndum sem náttúruverndarsamtökin sýna, svo að ekki sé minnst á algert virðingarleysi fyrir fólki sem vill fá tækifæri til að vinna heiðarlega vinnu í stað þessa að lifa við atvinnuleysi, óöryggi og erfið kjör.
Náttúrverndarsamtökin benda á að álver í Helguvík sé ekki einkamál Suðurnesjamanna. Þetta er réttmæt ábending enda munu framkvæmdirnar í Helguvík skila þjóðarbúinu miklum verðmætum.
Stjórn atvinnusköpunar.net