Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 20. nóvember 2001 kl. 08:35

Fundur Vinstri grænna á Suðurnesjum

Stofnað hefur verið svæðisfélag Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs (VG) á Suðurnesjum. Félagið er opið öllum Suðurnesjabúum sem styðja stefnumál flokksins og ekki eru skráðir í annan stjórnmálaflokk. Félagið heldur sinn fyrsta opna stjórnmálafund á Hafnargötu 15 (fyrir ofan Úrval-Útsýn) á fimmtudaginn 22. nóv. klukkan 20. Gestur fundarins verður Ögmundur Jónasson alþingismaður.
VG er í eðli sínu grasrótarhreyfing og styrkur flokksins byggir á hugmyndaauðgi og dugnaði almennra stuðningsmanna og félaga. Hreyfingin vinnur að jöfnuði og fjölbreytni í byggð landsins, sem grundvallast á öflugu velferðarkerfi, samfélagi samábyrgðar, umhverfisvernd og sjálfbærri þróun, lýðræði og réttlæti.
Grunneiningar VG eru svæðisfélög sem hafa verið að myndast um land allt sl. ár. Suðurnesjafélagið er rétt að hefja starfsemi og nýjir félagsmenn eru meira en velkomnir.
Mikilvægir þættir velferðar- og menntakerfisins eru nú á valdi sveitarfélaganna. Framundan eru sveitarstjórnarkosningar og mun hreyfingin taka þátt í þeim með beinum eða óbeinum hætti og hafa þannig áhrif almenningi til hagsbóta. Baráttan fyrir jöfnuði og félagslegu réttlæti og sjónarmið náttúruverndar þurfa að eiga sér öfluga málsvara í sveitarstjórnum.
Það er gott að búa á Suðurnesjum og Sveitarstjórnir hafa staðið saman um mörg þörf mál, svo sem um Hitaveituna (sem þau eru nú e.t.v. að missa úr hendi sér) og eru að lyfta grettistaki í skólamálum. VG berst fyrir því á Alþingi að fjárhagsgrundvöllur sveitarfélaga verði styrktur til að geta staðið undir góðri þjónustu án óhóflegrar skuldasöfnunar.
Umhverfismálin hafa hins vegar setið nokkuð á hakanum. Skipulag byggðar þarf bæði að taka mið af fjölskrúðugu náttúrufari Suðurnesja og þörfum fólks fyrir hlýlega, friðsama og fallega byggð með góðum samgöngum. T.d. þarf að vernda þau fáu vötn og votlendi sem hér eru, en nýleg áform um atvinnusvæði við Rósaselsvötn í Keflavík ganga t.d. í þveröfuga átt. Gera þarf kröfur um að framkvæmdum ljúki með sómasamlegum viðskilnaði við umhverfið, t.d. á nýbyggingarsvæðum. Svo þarf herinn náttúrulega að fara að skila Nikkelsvæðinu í ekki lakara ásandi en hann tók við því fyrir hálfri öld.
Ef við horfum til landsins alls er ljóst að stjórnun fiskveiða er í molum, flestir fiskistofnar í lægð, fáir útvaldir fá að róa og stjórnvöld hygla þeim veiðiaðferðum sem sóa mestri olíu og nýta minnst af fiskinum. Aflaheimildir safnast á fáar hendur sem ýtir undir búseturöskun sem ekki sér fyrir endann á. VG hefur markað stefnu til að komast út úr þessum ógöngum, sem mun að vísu taka nokkuð langan tíma ef komst á hjá hruni útgerðarinnar.
Þessi mál – og mörg önnur – verða til umræðu á fundinum á Hafnargötu 15 annað kvöld (fimmtudag) kl.20. Þar gefst líka gott tækifæri til að ræða við okkar ágæta alþingismann, Ögmund Jónasson.

Þorvaldur Örn Árnason sími 24 6841 netfang [email protected]
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024