Full ástæða til að vera áfram bjartsýn!
Nú er komin skýringin á því hvers vegna sumir samfylkingarmenn gengu á hælunum á Ljósanótt; Þeir óttuðust svo að orð mín um greiðslu skulda bæjarsjóðs væru skilin svo að bærinn væri orðinn „skuldlaus“. Þetta kom fram í áminningu oddvita Samfylkingarinnar hér í síðustu Víkurfréttum.
Í ávarpi mínu á Ljósanótt var ég að tilkynna þau ánægjulegu tíðindi að bæjarsjóði væri nú að takast að greiða upp allar bankaskuldir sínar, alla útistandandi reikninga og öll erlend bankalán - rekstur bæjarsjóðs gengi vel og tækifærin framundan í atvinnumálum myndu styrkja stöðu íbúanna og allra landsmanna. Þá færði ég gestum þær góðu fréttir að efnisleg niðurstaða væri komin í samninga Norðuráls og HS Orku. Þessar staðreyndir settu auðvitað meirihluta manna upp á tærnar!
Af orðum odvita Samfylkingarinnar í Víkurfréttum mátti skilja að þetta hafi fallið í „grýttan jarðveg“ í hans félagsskap. Það er mér óskiljanlegt þegar þetta ætti að vera „öllum“ fagnaðarefni, nema þeim fáu sem vilja nærast á því að hér sé allt á vonarvöl vegna „skuldaklafa“. En þeir geta þá fært sig af hælunum yfir á iljarnar því það er ekki svo að bæjarsjóður sé orðinn „skuldlaus“. Þar munar mestu um að skuldbindingar okkar vegna lífeyrisgreiðslna og leiguskuldbindinga til 30 ára eru enn til staðar í reikningum. Þetta er ekki sett fram sem skuldir í venjulegum reikningsskilum fyrirtækja en nýjar reglur segja sveitarfélögum að skrá þetta inn. Þarna er verið að framreikna skuldbindingar um leigu til næstu 25 ára og allar lífeyrisskuldbindingar bæjarins. Sé tillit til þeirra inn í skuldahliðina eru skuldir og skuldbindingar háar þótt eignirnar séu mun meiri á móti. Eignir bæjarsjóðs um næstu áramót verða um 29 milljarðar króna en samanlagðar skuldir og skuldbindingar verða um 19 milljarðar kr. Ef teknar eru með skuldir og eignir hafnarinnar, HS Veitna o.fl. sem er í svokölluðum samstæðureikningi, eru eignirnar samtals um 46 milljarðar kr. en allar skuldbindingar og skuldir um 34,4 milljarðar kr.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri.