Fuglarnir í garðinum
Margar fuglategundir sem halda til á Íslandi yfir veturinn treysta á matargjafir yfir kaldasta tíma ársins. Mikil orka fer í að halda á sér hita og það getur verið erfitt að kroppa eftir fræjum eða grasi í frostinu. Lítil fuglahús á staur eða tré geta bjargað lífi snjótittlinga á veturna og á vorin setjast kannski að í þeim fiðraðir nágrannar.
Það er sorgleg staðreynd hve miklum mat við mennirnir hendum og því er tilvalið að leita annarra ráða fyrir matarafgangana okkar en að henda þeim beint í ruslið. Hér koma nokkrar tillögur að matargjöfum fyrir fuglana.
Athugið að fóðra verður með það í huga að kettir eigi ekki greiðan aðgang að fuglunum (nota trjágreinarnar og/eða fóðurpalla).
Feiti og mör: Flestir smáfuglar þurfa á mikilli fitu að halda yfir veturinn. Því er tilvalið að nýta steikingarfeitina af laufabrauðinu og setja t.d. haframjöl út í það og láta harðna. Hægt er að hella feitinni í plastbox og hvolfa svo úr boxinu þegar feitin hefur harðnað. Það sama má gera þegar kjöt er soðið í pottum eða ofni, láta vatnið kólna og veiða fituna ofan af. Lang flestir fuglar eru einnig sólgnir í mör, svo ef einhver á afgangsmör síðan úr sláturgerðinni þá má alltaf setja hana út fyrir fuglana.
Kjöt: Yfir vetrartímann vantar fuglana prótín þar sem skordýrin og fræin eru ekki til staðar og þá er tilvalið að setja út kjötsag og kjötafganga (ekki kryddaða eða a.m.k. mjög lítið kryddað). Sumir setja út hrátt hakk og líkar fuglunum það vel.
Ávextir: Fuglar eins og starrar og þrestir eru sólgnir í epli, perur og vínber. Best er að skera eplin og perurnar í helminga og stinga upp á greinarenda eða koma þeim fyrir á fóðurpöllum.
Þurrkaðir ávextir: Rúsínur og sveskjur eru einnig vinsælar hjá smáfuglunum. Gott er að leggja rúsínurnar og sveskjurnar aðeins í bleyti áður en þær eru settar út í garð.
Brauðmeti: Brauðmeti, sérstaklega ef það er blandað smá feiti (matarolíu, smjöri eða annarri fitu) er vel þegið í kuldanum.
Haframjöl: Haframjöl með feiti út á er góð og mettandi næring yfir veturinn. Best er að sjóða vatn og hella yfir haframjölið þannig að mjölið drekki í sig vökvann og setja svo smávegis af matar- eða kókosolíu yfir.
Korn: Snjótittlingar vilja helst maískorn, sólblómafræ eða finkukorn. Dúfur og rjúpur sækja stundum í garða í harðindum en þær eru einmitt líka kornætur. Svo bjóða flestar matvörubúðir upp á sérstakar fóðurkúlur sem eru alltaf vinsælar. Þær innihalda allt það sem smáfuglarnir þurfa, prótín, kolvetni og nóg af fitu. Kúlurnar eru ódýrarar og auðvelt er að hengja þær t.d. á trjágreinar.
Fuglar á Reykjanesi, áhugamannahópur.