Frumskógur laga og reglna
Með EES samningnum sem tók gildi 1994 samþykkti Ísland að taka yfir gildandi reglur ESB á þeim sviðum sem samningurinn tekur til. Í samningum var einnig tekið á því að samráð skyldi haft við EFTA ríkin, og þar með Ísland, um reglur sem settar yrðu í framtíðinni. Engum dettur í huga að halda því fram að EES samningurinn sé einfaldur eða það alþjóðaumhverfi sem Ísland hefur samið sig inn í með aðild að evrópska efnahagssvæðinu og EFTA.
En við eigum heldur ekki að falla í þá gryfju að skýla okkur á bak við það sem er gert á þeim vettvangi, yppta öxlum og segja; ,,við verðum að hafa þetta svona – við getum ekkert að þessu gert.”
Okkar að gæta hagsmuna Íslands
Það er á ábyrgð stjórnmálamanna hverju sinni að gæta hagsmuna Íslands hvar og hvenær sem er. Aðild að EES samningum er hluti af þessari hagsmunagæslu og hefur örugglega verið þjóðinni til góðs fremur en ílls. Hins vegar er ekki hægt að varpa frá sér ábyrgð þó slíkir samningar séu gerðir. Ábyrgðin er ennþá heima fyrir – hjá Íslendingum. Með samráðsákvæðum hafa Íslendingar tækifæri til að hafa áhrif á nýjar reglur og gerðir sem eru í bígerð innan ESB. Við höfum hins vegar alltof oft þurft að reiða okkur á aðrar þjóðir í þessu samráði og ekki verið megnug til að koma okkar sjónarmiðum sjálf á framfæri.
Skoðum fyrst það sem til er heima
Áður en við tökum yfir og þýðum heilan helling af nýjum reglugerðum verðum við að skoða það sem til er nú þegar í íslenskri löggjöf. Of oft hefur það gerst að gerðar hafa verið nýjar og næstum óþarfa reglur þegar til eru íslenskar og eldri reglur um sama hlutinn. Það sem verra er – jafnvel verið settar á reglur sem eru á skjön við þær sem fyrir eru. Svona reglusetning er ekki neinum til góðs og nær sýst þeim markmiðum sem henni er ætlað í upphafi. Atvinnulífið hefur ekki farið varhluta af íþyngjandi og flóknum kröfum í kjölfar EES samningsins. Þegar spurt er: ,,Af hverju á ég að uppfylla þessar kröfur?”, á svarið að vera byggt á rökum og augljósri ástæðu en ekki ,,af því bara”.
Til hagsbóta
Margt gott má segja um þau lög og reglur sem gerðar hafa verið á Íslandi vegna ákvæða EES samningsins. Aðalmarkmið EES samningsins er einsleitt markaðssvæði. Með frjálsum viðskiptum og sameiginlegum réttindum fylgdi krafa um sameiginlegar reglur m.a. á sviði neytendaverndar, umhverfismála, félagslegra réttinda ofl. Flestar þessar reglur hafa verið til hagsbóta fyrir landsmenn í formi tryggari matvæla, hreinna umhverfis og aukinna lífsgæða. Fyrir það ber að þakka. Hitt er svo annað mál, og verkefni komandi ráðamanna, að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri svo reglusetning framtíðarinnar verði ekki of íþyngjandi og flókin fyrir alla aðila. Betra er að hafa engar reglur en slæmar og því verður að vanda til vinnubragða á öllum vígstöðvum ef almenningur, atvinnulífið og náttúran sjálf eiga að hagnast á slíku.
Elsa Ingjaldsdóttir
gefur kost á sér í 3. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.