Frumkvöðull á Kálfatjörn á 19. öld

Stefán Thorarensen var prestur á Kálfatjörn 1857–1886 og kom mörgu til leiðar. Hann ritstýrði sálmabókum, þýddi og orti fjölda sálma og stofnaði skóla sem enn starfar.

Minningu Stefáns verður haldið á loft á Kálfatjörn á sunnudaginn, 11. mars, kl. 13. Fjallað verður um störf hans og sungnir sálmar eftir hann. Haukur Aðalsteinsson flytur erindi um Stefán, uppbyggingu hans á Kálfatjörn og um stofnun skólans. Una Margrét Jónsdóttir á Rúv flytur erindi um sálmaskáldið og sálmana og kór Kálfatjarnarkirkju flytur nokkra sálma. Að loknu kaffihléi mun prófessor Hjalti Hugason flytja erindi um prestinn Stefán Thorarensen.

Á Kálfatjörn hefur lítið skólahús, sem reist var í Norðurkoti 1903, verið endurbyggt sem skólasafn. Það verður opið og athyglinni beint að upphafi skóla í Vatnsleysustrandarhreppi 1872 og þætti Stefáns Thorarensen í því.

Stefán var vinsæll prestur, stundaði búskap og árabátaútgerð af myndarskap, byggði upp staðinn og stofnaði einn af fyrstu barnaskólum landsins sem nú heitir Stóru-Vogaskóli. Líklega er hann þekktastur fyrr framlag sitt til sálmabóka landsmanna. Hann sat í sálmabókarnefndunum 1867 og 1878, lagfærði eða orti 95 sálma í sálmabókinni sem kom út 1871, og 44 sálma í sálmabókinni1886. Sóknarbörn hans báru honum í alla staði mjög vel söguna.

Athöfnin hefst kl. 13 í Kálfatjarnarkirkju og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Skólasafnið opnar kl.12. Sjá nánar um Safnahelgi 2018 á vefnum safnahelgi.is