Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 7. mars 2003 kl. 14:53

Frumherji í fjárkúgun

Sú var tíðin að Bifreiðaeftirlit ríkisins var ein óvinsælasta einokunarstofnun hins opinbera. Svo komu frjálshyggjupostular og eftir að þeir höfðu barið trumbur sínar um tíma varð ,,einkavæðing" lausn á öllum vandamálum íslensks samfélags; það var talið miklu eðlilegra að einkaaðilar okruðu á almenningi heldur en hann sjálfur (ríkið). Og einkavæðing hófst. Í einu tilliti hefur almenningur orðið var við einkavæðingu og það er í hækkandi útgjöldum á flest öllum sviðum. Einkavæðing Bifreiðaeftirlits ríkisins leiddi af sér nýja stofnun sem nefndist Bifreiðaskoðun Íslands hf. Til að réttlæta einkavæðinguna var aðstaða til öryggisskoðana á bílum gerð þannig að hún þoldi dagsljós en einkavæðingin var þó ekki meiri en svo að Lögreglan færði fyrirtækinu viðskiptavinina hvort sem þeir óskuðu viðskipta eða ekki - mun það vera einsdæmi í Evrópu nema ef til vill í fyrrum einræðisríkjum kommúnista.Bifreiðaskoðun varð ekki vinsælt fyrirtæki. Til að klóra í bakkann var enn stofnað nýtt fyrirtæki, Frumherji, en með því átti að reyna að brúa gjána sem myndast hafði á milli Bifreiðaskoðunar og fyrirtækja sem, af einfeldni sinni, héldu sig vera í eðlilegri samkeppni um öryggisskoðanir fyrir bíleigendur. Síðan hafa nýir stjórnendur tekið við hjá Frumherja, nú síðast stór hluthafi, og hefur sá gefið út miklar yfirlýsingar um öll þau skoðunarsvið sem þetta fyrirtæki eigi að geta yfirtekið. Eftir stendur að Frumherji, eitt einkafyrirtækja á Íslandi, starfar eftir lögum og reglugerðum sem gerir því kleift að hafa almenning að féþúfu. Samkvæmt lögum ber að leggja inn númeraplötur af bílum séu þeir ekki færðir til lögbundinnar aðalskoðunar á réttum tíma. Til munu vera reglur (frá tíma Bifreiðaeftirlits ríkisins) um að númeraplötur beri ekki að geyma nema 1 ár - þrátt fyrir að fólk hafi verið látið greiða fyrir þær fullt verð eins og fyrir hverja aðra lausamuni. Starfsmenn Bifreiðaeftirlitsins framfylgdu yfirleitt ekki þessum reglum, vegna þess hve þær þóttu óréttlátar, nema ekki tækist að ná sambandi við eigendur viðkomandi bíla eftir að númer höfðu legið inni árum saman. Nú bregður svo við að hjá Frumherja á Suðurnesjum (í Njarðvík) hefur númeraplötum verið fleygt umvörpum sem legið hafa inni lengur en 1 ár. Ekki verður annað séð en að ástæðan sé mannvonska, heimska og óliðlegheit nýs forstöðumanns. Aðgerðir hans hafa valdið því að Frumherji hefur haft fjölda fólks á Suðurnesjum að féþúfu - fólk sem þarf nú að greiða 6000 krónur fyrir ný númer sem það taldi sig eiga geymd, t.d. fólk sem greitt hafði tugþúsundir fyrir einkanúmer og taldi sig eiga númeraspjöld fasta númersins geymd þegar kom að endurnýjun bíls, jafnvel eftir 2 ár. Þetta er hrein og bein fjárkúgun. Rökin fyrir því að geyma ekki númeraspjöld lengur en eitt ár eru engin: Númeraspjöld taka minna rými í geymslu en flest önnur vara - það eru einungis rakvélarblöð sem taka minna pláss. Með þessu móti hefur Frumherji beitt bíleigendur á Suðurnesjum fjárkúgun. Ég læt ekki bjóða mér slíkt - mun ekki láta Frumherja skoða mína bíla héðan í frá - frekar skal ég hafa fyrir því að flytja þá (jafnvel á vagni) á Reykjavíkursvæðið þar sem ég get skipt við önnur skoðunarfyrirtæki en Frumherja.

Leó M Jónsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024