Frúin í hamborg

Hver kannast ekki við leikinn „Hvað á að gera við peninginn frá frúnni í Hamborg?“. Það má alls ekki segja já eða nei, hvað þá svart eða hvítt. Frúin í Hamborg er í þessu tilviki Alþingi við Austurvöll. Hún virðist hins vegar vera að gefa of lítið til Suðurnesja og munurinn á peningnum sem kemur til Suðurnesja eða fer annað virðist vera svart og hvítt. Og svarið við spurningunni hvort það sé að koma nóg er „nei“. Þarf meira? „Já“.
 
Reykjanesbær boðaði í síðustu viku til opins fundar um fjárveitingar ríkisins til Suðurnesja. Þar var kynnt samantekt sem Dr. Huginn Þorsteinsson, ráðgjafi hjá Aton, hafði tekið saman fyrir Reykjanesbæ. Samantekt sem sýnir svart á hvítu að minna fjármagn er að berast til Suðurnesja en annarra landsvæða. Þetta er alls ekki ný staðreynd og það hefur viðgengst lengi að stofnanir eins og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eða Fjölbrautaskóli Suðurnesja fái mun lægri fjárveitingar á hvern íbúa heldur en sambærilegar stofnanir úti á landi. Þá eru hjúkrunarrýmin fæst hér og lengi mætti telja.
 
Með fundinum vildi Reykjanesbær vekja athygli á þessum staðreyndum og vekja ráðamenn til umhugsunar. Íbúafjölgun í Reykjanesbæ hefur verið fordæmalaus á undanförnum árum, allt upp í tæp 8% á ári, sem er langt umfram landsmeðaltal. Íbúum Reykjanesbæjar hefur t.a.m. fjölgað um 3.000 manns frá árinu 2013. Þessi fjöldi samsvarar öllum íbúum Grindavíkur. Ekkert lát virðist vera á þessari fjölgun íbúa. Á sama tímabili hefur fjöldi erlendra ríkisborgara með búsetu í Reykjanesbæ tvöfaldast. Þeir eru núna 2.660 en voru 1.300 árið 2013. Þrátt fyrir allan þennan vöxt þá hafa framlög ríksins ekki vaxið með sama hætti og í raun staðið í stað.
Bæði þingmenn og frambjóðendur tóku virkan þátt í fundum. Á meðan einhverjir vissu upp á sig skömmina þá var öðrum brugðið að sjá þá mismunun sem Suðurnesjamenn búa við og erfitt hefur verið að breyta þrátt fyrir að Suðurnesjamenn hafi t.a.m. um tíma átt 7 af 10 þingmönnum kjördæmisins og ráðherrar í ríkisstjórn hafi komið frá Suðurnesjum.
 
Heimafólk kallar eftir leiðréttingu og að sitja við sama borð og aðrir landshlutar eða jafnvel svæði innan sama kjördæmis því nokkur dæmi voru dregin upp á fundinum sem sýna aðra stöðu fyrir austan fjall.
Í blaðinu í dag er fjallað nokkuð ítarlega um fundinn.
 
Hilmar Bragi Bárðarson