Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 29. apríl 2002 kl. 10:30

Fréttaflutningur af “Taxi-Bus” kerfinu er villandi

Í bæjarblöðunum, Morgunblaðinu og í fréttatíma Stöðvar tvö hafa nú að undanförnu birst viðtöl við Kjartan Má Kjartansson efsta mann Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ. Í þessum viðtölum og greinum hefur Kjartan lýst ágæti svonefnds “Taxi-Bus”, sem er einhvers konar blanda af strætó og leigubílaakstri. Þetta kemur fram í grein Einars Steinþórssonar til Víkurfrétta.Þar sem fréttaflutningur af þessu “Taxi-Bus” kerfi er mjög villandi að mínu mati og ekki hefur allt komið fram sem skiptir máli, tel ég mér skylt að koma með nokkur af þessum atriðum.
Kjartan talar um að hægt sé að lækka kostnað Reykjanesbæjar við strætisvagnakerfið um helming, eða úr 36 milljónum í 18. Vissulega eru þetta háar upphæðir, en setja verður þetta í samhengi við hvað hlutirnir kosta. Í Reykjavík er talað um að kostnaður sé u.þ.b. 1.200 milljónir á ári, eða nálægt 10.000 kr á íbúa á ári og þá er ótalinn kostnaður við skólaasktur sem er talsverður. Í Reykjanesbæ er kostnaður við strætisvagnaakstur og skólaakstur u.þ.b. 3.500 kr á ári á íbúa, eða rétt um þriðjungur af kostnaði í Reykjavík. Tillögur Kjartans um að lækka kostnað um 18 milljónir á ári, eru að mínu mati algerlega óraunhæfar. Hans forsendur í farþegafjölda standast alls ekki, kostnaður við að halda utan um kerfið er allt of lágt reiknaður og síðast en ekki síst er ekki búið að skoða hvað eiginlegur skólaasktur kostar, sem hann reiknar ekki með í sínum forsendum.
Þetta kerfi getur átt rétt á sér í Kanada þar sem eru hugsanlega aðrar aðstæður. Hér á landi hefur þetta kerfi verið kannað í nokkrum sveitarfélögum og alls staðar hefur niðurstaðan verið sú sama, þetta hentar ekki.
Mögulegt að að ástæðurnar séu eftirfarandi:
Við treystum okkar leigubílstjórum, en vilja foreldarar taka áhættu á þvi að barnið þeirra fari upp í bíl hjá einhverjum öðrum sem stoppar við stoppistöð til að bjóða barni far? Telur fólk að börn eða unglingar sjái mun á leigubíl, eða einhverjum öðrum sem ákveður að bjóða litlu barni far? Hvernig á að leysa málið þegar bíða tveir eða þrír barnavagnar, eða reiðhjól á stoppistöð? Hvernig á að leysa málið þegar standa óvænt leikskólahópur á stoppistöð? Þurfa allir að ganga með farsíma í vasanum, allt frá 6-7 ára börnum upp í fullorðna? Og síðast en ekki síst, telja leigubílstjórar að þeir hafi góðar tekjur af því að taka t.d. upp fjóra farþega á fjórum mismunandi stöðum í Innri Njarðvík eða Höfnum og skila þeim aftur á fjóra mismunandi staði í Keflavík, fyrir 800 kr? Ætla leigubílstjórar að tryggja það að alltaf séu nægir bílar til staðar til að þjónusta kerfið? Þessum og mörgum fleiri spurningum er ósvarað.
Gerir fólk sér grein fyrir því að með svona tillögum er verið að stíga gríðarlegt spor aftur á bak í þjónustu við bæjarbúa, á sama tíma og kostnaður mun trúlega aukast þótt eingöngu sé miðað við að hafa sama tíma á kerfinu og er í dag. Reyndar reiknar Kjartan með því að skera niður þjónustuna, þannig að kerfið verði ekki í gangi nema fram yfir kvöldmat, eins og forsendur voru settar upp á kynningarfundi á dögunum.
Ég held að bæjarbúar ættu frekar að krefjast þess að þjónustan verði bætt frá því sem nú er. Það er örugglega hægt að fara yfir strætókerfið og hagræða, en nota þá hagræðingu til að efla kerfið og að fá samgöngur einnig um helgar.
Ég held að Kjartan ætti að leggja spilin á borðið og koma með þær tillögur sem hann vill koma í gegn eftir kosningar, frekar en að vera með einhverjar hálfkveðnar vísur um gríðarlegan sparnað í strætókerfinu, án þess að rökstyðja það á nokkurn hátt.
Einar Steinþórsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024