Frárennslismál og landakaup í Garði
Ég er íbúi við Garðbraut í Garði og þurfti að þola bæði fjárhagslegt og tilfinningalegt tjón þegar saurmengað skólp flæddi upp úr niðurfalli á bílskúrsplani og í bílskúr við hús mitt nú í nóvember, vegna þess að holræsalögn hafði ekki undan að flytja vatn og skolp til sjávar í töluverðri úrkomu.
Þetta hafði gerst áður en nú urðu skemmdir á munum í bílskúrnum auk þess sem þetta var ógeðfelld reynsla fyrir okkur íbúa hússins. Sú skýring sem ég fékk hjá bæjarstjóranum Ásmundi Friðrikssyni var að þetta væri líklega stífla og að einn landeiganda Gerða hefði stoppað framkvæmdir við tengingu holræsis á landi sínu síðla hausts 2009.
Ég get tekið við afsökun frá bæjarstjórn á þessu atviki en ég tel bæjarstjórann og meðlimi í meirhluta þeirra bæjarstjórna sem starfað hafa síðan haustið 2009 og fram á þennan dag skulda öllum Garðbúum afsökunarbeiðni fyrir það að stöðva verkið án þess að lögbanni að hálfu landeiganda hafði verið beitt.
Þær upplýsingar sem ég fékk frá Umhverfisráðuneytinu, Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga og lögfræðingi eru að landeiganda beri að láta land undir fráveitur á landi sínu samkvæmt lögum nr. 9/2009 18. gr.
Bæjarstjóra bar því að halda framkvæmdinni áfram og láta svo reyna á það hvort landeiganda bar sá réttur að stöðva verkið með lögbanni.
Með því að stöðva án lögbanns gætti bæjarstjórinn ásamt meirihluti bæjarstjórnar ekki hagsmuna Garðbúa og auk þess var síðan farið að ræða landakaup af þeim aðila sem beitti svo grófum aðferðum við að stöðva lagningu holræsis á landi sínu. Það skal tekið fram eftir þeim upplýsingum sem undiritaður fékk hjá bæjarstjóra að það var aðeins einn þriggja landeigenda sem stöðvaði verkið, það var Finnbogi Björnsson. Björg Björnsdóttir gaf leyfi fyrir þessum framkvæmdum en um afstöðu Bergþórs Baldvinssonar veit ég ekki.
Þá sjálfsögðu kröfu verður að gera til bæjarstjóra og meirihluta bæjarstjórnar hverju sinni að þau þekki grundvallarlög sveitarstjórnarlaga án þess að ráðfæra sig við lögfræðing, bæjarstjóra eru greidd há laun og hann ætti að geta kynnt sér rétt bæjarbúa í þessum málaflokki án aðstoðar.
Hvað fyrirhuguð kaup á Gerðalandi varðar, þá er það mín skoðun að viðræður um þau ætti að leggja til hliðar þar til lagningu holræsis er lokið.
Áður en haldið er áfram samningum um þessi landakaup ber meirihluta bæjarstjórnar ásamt bæjarstjóra að leggja fram öll gögn sem landakaupin varða s.s. fjárhæðir, skiptingu eignarinnar, íbúaþróun síðustu 30 ár ofl. svo hagsmunir allra íbúa í Garði verði hafðir í fyrirrúmi.
Virðingafyllst
Jóhannes S. Guðmundsson