Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Framtíð Reykjanesbæjar
Miðvikudagur 18. febrúar 2004 kl. 16:56

Framtíð Reykjanesbæjar

Ég hef heyrt þess getið að mikil fjárútlát undanfarin misseri hafi verið raunin hjá núverandi bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Ég ætla mér ekki í dómarasæti enda ekki sett mig inn í ársreikninga bæjarins. Hitt er annað að mér finnst bærinn orðinn hinn glæsilegasti og vonast til þess að framkvæmdargleði núverandi bæjarstjórnar verði ekki bæjarfélaginu ofviða og skili sér síðar í formi aukinna tekna. Auðvitað verður að gæta hófsemi og tryggja jákvæða fjárhagslega afkomu Reykjanesbæjar, en eins og áður sagði hef ég ekki sett mig inn í fjármálin hjá bænum. 
Mikill umræða hefur verið syðra vegna dapurs atvinnuástands. Varnarliðið, Íslenskir Aðalverktakar og fleiri fyrirtæki hafa sagt upp fjölda starfsmanna á allra síðustu mánuðum og samkvæmt síðustu fréttum er mjög ólíklegt að stálpípuverksmiðja verði sett á laggirnar á Reykjanesi. Atvinnuleysið er það hæsta sem þekkist í stærri byggðum á Íslandi. Barlómurinn er því ekki að ástæðulausu en hvað gæti verið til ráða miðað við núgildandi lög og reglur ?

Hugmyndir : Sykurverksmiðja & pappírsverksmiðja?

Íslendingar flytja inn 30.000 tonn af sykri á ári. Öll þekkjum við danska sykurinn en hann verið fluttur inn í miklu magni um margra ára skeið. Hugmyndum hefur verið varpað fram hvort við Íslendingar getum sett á fót sykurverksmiðju. Verksmiðja af þessari stærðargráðu biður um mikla orku. Því hafa 3 byggðarlög verið nefnd sem ákjósanlegir kostir fyrir staðsetningu slíkrar verksmiðju. Húsavík, Hveragerði og Reykjanesbær. Öll þessi byggðalög er í nálægð við jarðvarmasvæði. Árleg velta á slíku fyrirtæki gæti hugsanlega orðið 6000-9000 milljónir íslenskra króna. Við Íslendingar flytjum inn mikið magn af sykri frá dönskum pökkunarverksmiðjum en þar eru vinnulaun síst lægri og orkan í raun dýrari. 
Íslendingar flytja inn reiðinnar býsn af pappír, um 10.000 – 15.000 tonn. Stærstu kaupendurnir eru að sjálfsögðu stóru prentsmiðjunar sem bæði prenta símaskrána, dagblöðin, héraðsfréttablöðin, skrifstofupappír og ýmis konar auglýsingarpistla. Við þennan iðnað þarf timbur og orku. Árleg velta á slíku fyrirtæki gæti verið frá 3000-6000 milljónum íslenskra króna.


Sandgerði & Reykjanesbær sem stór handhafi aflaheimilda?

Kvótalögin er því miður enn í gildi og í sérstöku uppáhaldi ef ekki ástfóstri núverandi ríkisstjórnar.
Nýlega seldi Landsbankinn öflug sjávarútvegsfyrirtæki út á landsbyggðinni. T.a.m. keyptu feðgar frá Snæfellsnesi Útgerðarfélag Akureyrar fyrir u.þ.b. 9 milljarða íslenskra króna. Kvótinn hjá Ú.A er um 20.000 tonn. Ég hef velt því fyrir mér hvort það hefði verið gáfulegt fyrir Reykjanesbæ og Sandgerðisbæ að kaupa Ú.A. Ég hef skoðað þessa hugmynd frá því sjónarhorni að Reykjanesbær myndi leigja frá sér aflaheimildir með aðstoð Fiskmarkaðs Suðurnesja. Miðað við ríkjandi ástand  myndu tekjur af slíku uppboði vera u.þ.b. 2 millarðar á ári eða 10% kaupverðsins. Aðrar tekjur myndu koma í kjölfarið, í veltu útgerðar og fiskvinnslu og öðrum þjónustugreinum tengdum sjávarútvegi. Því myndu útsvarsgreiðslur einnig stóraukast.  Auðvitað yrðu skilyrði sett fyrir leigu aflaheimilda. T.a.m. að öll leiga yrði til útgerða innan svæðisins. Öllum fiski yrðu landað á fiskmarkað sem vissulega myndi efla fiskvinnslu á svæðinu. Ég er nokkuð viss um að tími bæjarútgerðanna í þvi formi sem þær voru er liðinn. 
 En þessi hugmynd sem hér er varpað fram með grófum lýsingum er kannski ekki svo galin. Gjöld vegna leigu á aflaheimildum myndu dragast af viðkomandi útgerð þegar fiskmarkaður greiðir til útgerðarinnar fyrir söluna á hráefninu. Fiskmarkaður myndi skila tekjunum frá sér viku eða mánuðarlega til kaupstaða sem fjármögnuðu kvótakaupin. Hér er eingöngu valhoppað á hugmyndum sem hægt væri að koma við innan þess lagaramma sem er ríkjandi í fiskveiðistjórnun Íslendinga í dag. Frjálslyndi flokkurinn hefur hins vegar á sinni stefnuskrá að breyta lögunum og koma á langtum hollari stjórnun á fiskveiðum Íslendinga.

Nýtt bæjarmálafélag?

Það er metnaður hjá Frjálslynda flokknum að stofna bæjarmálafélög víða um land. Undanfarin misseri hef ég undirbúið af miklum krafti stofnun bæjarmálafélags Frjálslynda flokksins í Hafnarfirði en við stefnum að veglegum stofnfundi um næstu helgi. Fylgi Frjálslyndra í Hafnarfirði er öflugt. Má því telja líklegt að nýtt félag í Hafnarfirði muni standa að framboði til sveitastjórnakosninga þegar þar að kemur. Ekki eru nema örfáar vikur frá stofnun viðlíka félags á Húsavík. 
Ég bið alla sem áhuga hafa á nýjum bæjarmálaflokki í Keflavík að hafa samband við undirritaðan þingmann eða höfuðstöðvar flokksins í Reykjavík.

Þakka þeim sem lásu.

Gunnar Örn Örlygsson
Alþm. Frjálsynda flokksins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024