Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Framsókn fyrir Suðurnes
Fimmtudagur 23. september 2021 kl. 09:37

Framsókn fyrir Suðurnes

Þau eru þung höggin sem Suðurnesin hafa orðið fyrir á síðustu árum. Fyrst var það fall Wow air og síðan heimsfaraldurinn sem hafði ekki hvað síst mikil áhrif á atvinnutækifærin á Suðurnesjum þar sem ferðaþjónusta, flutningar og fleira sem tengist fluginu er stærsti atvinnuvegurinn. Það hefur verið lærdómsríkt og veitt innblástur að fylgjast með baráttu Suðurnesjafólks síðustu mánuðina og ár þar sem eldmóður og bjartsýni hefur verið mikið hreyfiafl góðra hluta.

Fjölbreyttari atvinnutækifæri

Ríkisstjórnin hefur tekið þátt í því að skapa ný tækifæri með Suðurnesjafólk með stuðningi við uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra og menntun á svæðinu þar sem Keilir er mikilvæg uppspretta. Suðurnesjafólk hefur í þeirri vinnu sýnt mikla framsýni og þau eru mörg fræin sem þar hefur verið sáð sem munu veita heimafólki ríkulega uppskeru þegar fram í sækir. Þá er einnig rétt að minnast á stækkun Njarðvíkurhafnar gefur færi á þurrkví fyrir stærri skip sem mun skapa fjölmörg störf í þessu fornfræga sjósóknarbyggðarlagi. Þá mun sú uppbygging sem stendur fyrir dyrum í Helguvík skapa fjölbreytt atvinnutækifæri á næstu árum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Græn atvinnuuppbygging

Saga Helguvíkursvæðisins hefur ekki verið neinn dans á rósum. Heimamenn hafa mátt sætta sig við erfið áföll í uppbyggingu svæðisins en nú horfum við fram á mikil tækifæri á svæðinu sem tengist náið hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Við í Framsókn höfum verið áfram um að sorpbrennslustöð fyrir Ísland rísi í Helguvík og verði hluti af þeim grænu iðngörðum sem eru á teikniborðinu. Það er nefnilega svo að mikil atvinnutækifæri eru fyrir Suðurnesin í nýju og grænu hagkerfi.

Kraftur náttúru og manna

Síðasta vetur heimsótti ég Suðurnesin nokkrum sinnum. Jörð ýmist skalf eða gaus. Það er virkilega aðdáunarvert hvernig Suðurnesjafólk hefur tekið öllum þessum hamförum með yfirvegun og dugnaði. Eldgosið hefur dregið athygli heimsins að sér og einnig dregið fjölmarga landsmenn á svæði sem er ríkt af stórkostlegri náttúru og krafti. Á þessum krafti náttúru og manna verður hægt að byggja blómlegt mannlíf og öflugt atvinnulíf á næstu árum.

Sigurður Ingi Jóhannsson,
formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.