Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 15. apríl 2004 kl. 14:17

Framgang framhaldsskólanna má ekki hindra

Íslenskir framhaldsskólar eru fjölbreytilegir og hafa á margan hátt skotið nýjum stoðum undir byggðir landsins. Sérstaklega þær sem eiga í vök að verjast. Aðsókn í þá hefur aukist og þeir hafa á sumum sviðum náð góðum árangri. Þó ber nokkra skugga á þar sem ríkisvaldið hefur ekki sinnt nokkrum af mikilvægustu þáttum skólans. Verknámið er í vanda vegna fjárskorts og skortur á styttri starfsnámsbrautum hefur leitt til þess að brottfallið úr framhaldsskólunum er gríðarlega mikið. Rúmur þriðjungur hættir áður en námslokum er náð.

Blikur á lofti

Fleiri blikur eru á lofti og á dögunum fengu stjórnendur framhaldsskólanna hreint dæmalaust bréf inn á borð til sín. Það var frá menntamálaráðuneytinu og sagði að þeir yrðu að taka upp strangar fjöldatakmarkanir við skólana. Stjórnvöld myndu ekki bæta þeim upp nemendafjölda umfram fyrirfram ákveðin nemendaígildi. Hér skyldi staðar numið og stöðvuð sú vaxandi sókn sem verið hefur í skólana. Hjá fólki á öllum aldri. Jafnfram er látið að því liggja annarsstaðar að þeir sem séu að hefja nám í framhaldsskólunum aftur muni eiga erfitt með að fá inni í skólunum.

Hótunarbréf menntamálaráðherra
 
Ef tilskipanir menntamálaráðherra um fjöldatakmarkanir í framhaldsskólana ganga eftir er skólakerfinu greitt þungt högg. Þá ekki síður þeim byggðum sem eiga mikið undir öflugum framhaldsskólum sem geta tekið við öllum sem þangað sækja. Þar stöðvast fólksflóttinn og menntunarstigið eykst á svæðunum. Samhliða því möguleikar og tækifæri byggðanna til raunverulegrar sóknar. Framhaldsskólanir og uppbygging fjarnáms í gegnum Fræðslunetin leika þar lykil hlutverk.

Þetta á t.d. vel við um Framhaldsskólann á Suðurnesjum. Aðsókn að skólanum hefur aukist verulega og hlutfall hvers árgangs sem í skólann sækir nú loks náð landsmeðaltali. En gangi hótunarbréf menntamálaráðherra eftir um fjöldatakmarkanir þá kemur það sem mikil hindrun á vöxt og viðgang skólans og þeirri tækifæraveitu sem hann er inn á svæðið. Svæði þar sem menntunarstigið er lægst á landinu og atvinnuleysið mest.

Ef skólinn þarf að takmarka nemendafjölda sinn við það sem lagt er upp með gæti hann þurft að vísa frá á annað hundrað nemendum, að minnsta kosti! Hvert á það fólk að leyta? Á atvinnuleisskrána?

Þessi Þrándur í Götu menntunar í landinu er alvarleg atlaga að starfi framhaldsskólana. Þessum lykilstofnunum í samfélaginu og undirstöðu margra byggða fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Stjórnvöld vaða villigötur og verða að sjá að sér.


Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024