Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 6. janúar 2005 kl. 15:58

Framfarir og framtíðin.

Um áramót er það ágætis siður að líta yfir það liðna og skoða hvað hefur vel tekist og hvað mætti betur fara. Einnig að horfa til framtíðar og leggja línurnar.

Á síðustu árum hefur verið mikill uppgangur hér í Garði. Frá árinu 2000 hafa verið byggðar 67 nýjar íbúðir og á næsta ári stefnir í að a.m.k 30 nýjar íbúðir verði byggðar.
Íbúum hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu ár og miðað við des. 2004 eru íbúar í Garði orðnir 1322. Hér er um mestu hlutfallslegu fjölgun að ræða meðal sveitarfélaga á Suðurnesjum og verulega umfram landsmeðaltalsfjölgun.
 Í Reykjanesbæ fjölgaði um 47 eða um 0,43%
 Í Grindavík fjölgaði um 58 eða um 2,40%
 Í Sandgerði fjölgaði um 5 eða um 0,36%
 Í Vogum fjölgaði um 11 eða um 1,19%
 Í Garði fjölgaði um 39 eða um 3,04%
Það er ánægjuleg þróun að íbúum skuli fjölga í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum.
Á síðustu árum hafa átt sér stað miklar framkvæmdir í Garði. Byggt hefur verið við Gerðaskóla, sparkvöllur byggður við skólann, leikskóli byggður,verulegt átak gert í malbikun gatna og lagningu gangstétta auk annarra umhverfisframkvæmda. Mikla fjármuni hefur þurft til að útbúa götur og lagnir vegna nýbygginga.
Framundan eru miklar framkvæmdir hvað varðar stækkun byggðasafnsins, sem nú er unnið að. Stækkun leikskólans auk áframhaldandi framkvæmda í gatnagerð.
Nýbyggingar og framkvæmdir eru fjármagnaðar með lántökum en þegar til lengri tíma er litið mun þetta skila sér til sveitarfélagsins.
Þeir sem standa í atvinnurekstri hafa verið drjúgir við að byggja upp og efla sín fyrirtæki, sem auðvitað er undirstaða þess að sveitarfélagið blómstri.

ENGAR FASTEIGNIR SELDAR
Garður stendur mjög vel og hefur ekki enn selt neitt af sínum fasteignum , sem mörg sveitarfélög hafa gert til að ná í aukið fjármagn til að standa undir rekstri og framkvæmdum. Garður á einnig myndarlegan hlut í Hitaveitu Suðurnesja.Eignastaða Garðs er mjög sterk.
Á nýju ári munu umræður um sameiningarmál sveitarfélaga fara í gang og framundan eru kosningar víða á landinu.
Enn er ekki vitað hvort Sameiningarnefnd Félagsmálaráðuneytisins gerir tillögu um sameiningu sveitarélaga hér á Suðurnesjum en á næstunni munu endanlegar tillögur nefndarinnar birtast.
Bæjarstjórn Garðs var spurð um sína skoðun á sameiningarmálum og hefur lýst því yfir að hún telji ekki ástæðu til að breytra frá núverandi fyrirkomulagi.Grindavík hefur lagst gegn sameiningu og væntanlega Sandgerði einnig. Fram hefur komið hjá Vogamönnu að þeir vilji komi til sameiningar setja stefnuna á Hafnarfjörð.Reykjanesbær þ.e. bæjarstjórnin hefur lýst yfir vilja til sameiningar.
Miðað við þetta verður vandséð hvernig Sameiningarnefnd getur sett fram tillögu um sameiningu allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

ENGINN SPARNAÐUR.
Standi Garðmenn aftur á móti frammi fyrir þeirri spurningu hvort rétt sé að sameinast hljóta menn að velta því fyrir sér hvort sá mikli uppgangur sem verið hefur í Garðinum hefði átt sér stað værum við hluti af Reykjanesbæ.
Höfum við trú á því að hagsmunum okkar væri eins vel sinnt ef öllu væri stjórnað af fulltrúum Reykjanesbæjar?
Höfum við trú á því að jafn mikill uppgangur verði á næstu árum hér ef öllu verður stjórnað af fulltrúum Reykjanesbæjar?
Það er staðreynd að sameining sveitarfélaga hefur ekki leitt til sparnaðar. Hægt er í því sambandi að nefna Reykjanesbæ, Árborg og Fjarðarbyggð.
Margir vilja meina að yfirstjórnunarkostnaður muni sparast við sameiningu. Athyglisvert er því að skoða þessar tölur (ársreikningur 2003)og bera saman í Garði og Reykjanesbæ. Í Garði er kostnaðurinn á íbúa  kr. 32.014 en í Reykjanesb kr. 31.806 á íbúa eða nánast sá sami. Þetta sýnir að  þrátt fyrir stærðarmun sveitarfélaganna hefur ekki náðst fram hagkvæmni hjá þeim stóra.
Að sjálfsögðu er eðlilegt að menn velti þessum málum fyrir sér og meti hvað sveitarfélaginu er fyrir bestu.

Þakka samskiptin á árinu 2004 með ósk um að nýtt ár verði okkur öllum til blessunar.
Sig.Jónsson, bæjarstjóri Garði

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024