Frambjóðendur á ferð í jólaannríkinu
Frambjóðendur Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi gáfu sér tíma frá annríki jólaundirbúningsins til að fara út á meðal almúgans og breiða út boðskap flokksins fyrir alþingiskosningarnar á vori komanda. Frambjóðendurnir létu ekki válynd veður aftra sér enda töldu þeir boðskapinn eiga fullt erindi til fólksins sem arkaði um búðir með innkaupakörfur fullar af allsnægtum fyrir jólin.
Í boðskap Samfylkingarinnar er að finna nokkrar vel valdar uppskriftir fyrir jólin og eina uppskrift sem á að duga vel til vors, samkvæmt því sem frambjóðendur flokksins halda fram. Er hún að kosningarétti fyrir 300 þúsund Íslendinga sem ber heitið Betra Ísland. Í uppskriftinni er m.a. að finna töluvert af jöfnuði, hnefa af réttlæti og slatta af bræðralagi, svo eitthvað sé nefnt.
Mynd: Björvin G. Sigurðsson, Guðný Hrund Karlsdóttir og Róbert Marshall voru í jólaskapi í Kaskó á föstudaginn.
VF-mynd: elg