Fræðslumál í Reykjanesbæ
Á undanförnum árum höfum við náð góðum námsárangri í grunnskólum Reykjanesbæjar svo eftir er tekið. Við þurfum stöðugt að vera á tánum til að viðhalda þessum árangri og bregðast við þegar skólasamfélagið breytist. Við verðum að tryggja nemendum öruggt og uppbyggilegt námsumhverfi þar sem þeir geta vaxið og dafnað sem einstaklingar.
Fagmennska í fyrirrúmi
Við munum leggja áherslu á fagmennsku og stuðning við kennara í námi og starfi. Sú áhersla beinist meðal annars að því að fjölga kennurum sem hafa kennsluréttindi, efla ráðgjöf til kennara til að koma til móts við fjölbreyttar þarfir nemendahópsins og meta fjölda nemenda í hverjum bekk. Með því stuðlum við að fagmennsku og að kennarinn hafi betra svigrúm til einstaklingsmiðaðrar kennslu og mæti nemandanum þar sem hann er staddur.
Skóli án aðgreiningar
Mikilvægt er að fjölga úrræðum til að koma til móts við nemendur með sérþarfir. Fjölga þarf sérdeildum með sérhæft hlutverk þar sem sérkennarar og þroskaþjálfar starfa til að veita nemendum bestu mögulegu menntun. Í skólunum eru fjölbreyttir nemendahópar og koma þarf til móts við námslega getu, mismunandi bakgrunn, menningarmun, hegðunarörðugleika og tvítyngi. Við viljum að áhersla sé lögð á að foreldrar og nemendur fái strax þann faglega stuðning sem þau þurfa.
Lestur
Lestur er undirstaða alls náms og er lykillinn að góðum námsárangri. Með lestri efla nemendur orðaforða sinn og lesskilning. Með öflugu samstarfi heimila og skóla viljum við skapa jákvæðar námsaðstæður fyrir nemandann til lestrarþjálfunar heima fyrir.
Forgangsraða fjármagni rétt
Mikið álag er í skólum og í mörg horn að líta. Mikilvægt er að forgangsraða fjármagni og huga að starfsaðstæðum kennara og þeim þörfum sem mæta þarf þar.
Við viljum að nemendur okkar fái þá bestu aðstoð sem þeir þurfa í skólanum og myndum vilja sjá að útskrifaðir kennarar, talmeinafræðingar, þroskaþjálfar, iðjuþjálfar og uppeldismenntað fólk starfi í grunnskólum Reykjanesbæjar.
Margrét Sanders skipar 1. sæti lista Sjálfstæðisflokksins
Baldur Guðmundsson skipar 2. sæti lista Sjálfstæðisflokksins
Anna Sigríður Jóhannesdóttir skipar 3. sæti lista Sjálfstæðisflokksins