Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 30. apríl 2002 kl. 11:12

Frábært framtak

Síðastliðinn sunnudag efndu ýmsir aðilar hér í bæ til sérstaks brúðkaupsdags. Það var mjög gaman að líta þar við. Bæði voru margir að kynna vörur sínar og þjónustu en þarna var líka lífleg dagskrá. Tískusýning, m.a. voru brúðarkjólar og klæðnaður brúðguma sýndur, frábær söngur var til skemmtunar o.fl.Í stuttu máli virtist mér þetta framtak almenn mælast vel fyrir. Margir sem ég ræddi við á staðnum sögðu, “Það er sko allt til hérna, fólk þarf ekkert að vera að flykkjast til Reykjavíkur”. Þetta eru orð að sönnu en það sem undrar mig er að þetta er ekkert nýtt. Flest þeirra fyrirtækja sem þarna voru hafa verið starfandi um nokkurt skeið hér í bæ. Sum mjög lengi.

Góð þjónusta
Yfirleitt er það svo að í minni byggðarlögum verður þjónusta oft persónulegri en þrátt fyrir góða þjónustu og þótt mörg þessara fyrirtækja hafi verið hér lengi má segja að ástandið á Hafnargötunni sé skelfilegt. Ýmsar verslanir hafa lokað og aðrar bera sig ekki vel.

Þurfum sjaldnast að fara annað
Það er því mikilvægt og gleðilegt að sjá að þeir sem enn eru að veita okkur sem hér búum þjónustu geta tekið höndum saman eins og gert var s.l. sunnudag. Það er farsælasta leiðin til að kynna starfsemina og að sannfæra íbúa um að það þarf ekki endilega að fara á höfuðborgarsvæðið til að versla.

Tökum höndum saman
Það er vonandi að þetta verði ekki einstakur atburður, heldur upphaf þess að verslanir og þjónustuaðilar standi saman og þeim takist að sannfæra íbúana um að þeir þurfi sjaldnast að fara annað. Ef íbúar og bæjaryfirvöld leggjast á árarnar með þessum aðilum getur verslun og þjónusta á þessu svæði rifið sig upp og átt bjarta framtíð. Það er þannig og með staðfestu og bjartsýni að vopni sem okkur mun takast að bæta þennan bæ.

Ávinningur allra
Höfum líka hugfast að þegar við verslum hér, þá má ætla að 10-20% af verðinu fari í laun starfsfólks. Tæp 13% af laununum fara svo sem útsvar til bæjarins. Þannig höfum við öll sameiginlegan hag af því að vel takist til.

Ég vil hvetja þá sem að þessu framtaki stóðu til að halda áfram á þessari braut við þurfum að bæta sjálfsmyndina og styrkja okkur í þeirri trú að við getum þetta saman.

Jóhann Geirdal
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024