Frábær skemmtun á kórtónleikum
Karlakór Keflavíkur hélt vortónleika sína í Grindavíkurkirkju föstudaginn 22. apríl kl. 20:30. Komu þeir stormandi inn í kirkjuna frá útidyrum syngjandi létt lag og stilltu sér upp um alla vídd kirkjunnar, alveg ný uppstilling, og tókst það vel. Nýr söngstjóri, Guðlaugur Viktorsson, virtist hafa góða stjórn á þessu öllu.
Einsöngvarar eru Davíð Ólafsson og Steinn Erlingsson. Þekktir söngvarar skiluðu sínum söng vel, gaman að heyra þá frændur syngja. Áður en varði var komið hlé, sem er ótrúlegt því svo gaman var að maður hreinlega gleymdi sér. Eftir hlé komu fram tveir harmonikuleikarar. Rússneskir tvíburar og alveg frábærir tónlistarmenn. Spiluðu þeir tvö lög við mikla hrifningu. Ekki voru kórmenn síðri er þeir tóku til við sönginn aftur. Nú fannst mér ég farinn að þekkja minn gamla kór aftur.
Undirleikarar með kórnum voru Sigurður Marteinsson, píanóleikari, Þórólfur Ingi Þórsson, bassaleikari og harmonikuleikararnir Júrí og Vadim Fedorov. Var þetta frábær söngskemmtun. Hefðu fleiri þurft að hlusta því Grindavíkurkirkja er alveg frábært hús til flutnings á tónlist.
Hafið kæra þökk fyrir ánægjulegt kvöld. Jón M og Sonja