Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Frábær Fló á skinni
Laugardagur 2. nóvember 2019 kl. 08:35

Frábær Fló á skinni

Leikfélag Keflavíkur frumsýndi á föstudaginn farsann Fló á skinni í leikgerð Gísla Rúnars Jónssonar undir leikstjórn Karls Ágústar Úlfssonar. Þessi leikgerð var á sínum tíma sett upp hjá Leikfélagi Akureyrar og gekk þar fyrir fullu húsi í mjög langan tíma, síðan var það flutt í Borgarleikhúsið þar sem það gekk lengi vel.

Þessi farsi er rúmlega hundrað ára gamall og ég var ekki alveg viss um að þetta hefði staðist tímans tönn. Þær áhyggjur mínar reyndust hins vegar algjörlega óþarfar og þetta stykki virðist vera tímalaust, enda er umfjöllunarefnið samskipti kynjanna og mannlegur breyskleiki. Búið er að staðfæra sýninguna og er verkið látið gerast á Suðurnesjum. Í stuttu máli gengur söguþráðurinn út á það að eiginkonu athafnamanns í sveitarfélaginu grunar hann um framhjáhald og ætlar sér að leiða hann í gildru. Sú áætlun misheppnast með öllu og úr verður ein allsherjar ringulreið og vitleysa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leikhópurinn sem að þessari sýningu stendur stóð sig frábærlega og ég átti stundum erfitt með að átta mig á hverjir væru í aðalhlutverki og hverjir í aukahlutverki. Persónusköpunin er með þeim hætti. Ýkt persónusköpun er hins vegar hluti af farsa og þar fannst mér margir úr leikarahópnum slá algjörlega í gegn. Það er ekki á neinn hallað að nefna Guðstein Fannar Erlendsson sem lék hinn málhalta Jóhann S. Ringsted. Guðsteinn átti stórleik í þessari sýningu. Þá var Hulda Björk Stefánsdóttir frábær í hlutverki Sveinbjargar hótelstýru á Hóteli Sveinbjörgun. Jón Bjarni Ísaksson lék tvö hlutverk í þessari sýningu sem hinn grunaði eiginmaður, Jóhannes Ringsted, og sem kokkur á hótelinu og stóð sig ágætlega í þeim báðum.

Ég hef sjaldan upplifað jafn sterkan leikarahóp hjá Leikfélagi Keflavíkur. Þau eru búin að starfa lengi saman mörg þeirra og hópurinn orðinn þéttur og góður. Þar var hvergi veikan blett að finna.

Það er mikill styrkur fyrir hvert sveitarfélag að eiga leikfélag eins og Leikfélag Keflavíkur og einstaklinga sem leggja mikið á sig í sjálfboðavinnu við að bæta og auðga mannlífið.

Ég vil því hvetja bæjarbúa til að mæta á þessa sýningu leikfélagsins, gleyma sér og hlæja eina kvöldstund. Þessi sýning er algjörlega þess virði.

Guðbrandur Einarsson