Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Frá sveitasíma  til snjalltækis
Laugardagur 7. maí 2022 kl. 07:04

Frá sveitasíma til snjalltækis

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Í nútímasamfélagi hefur ákveðinn hluti samskipta og þjónustu færst yfir á netið og  samfélagsmiðla og fréttir eru aðgengilegar allan sólarhringinn á netmiðlum. Símar og spjaldtölvur gegna stærra og stærra hlutverki í daglegu lífi okkar og sífellt bætast við nýjar leiðir til samskipta og fréttaflutnings. Þetta er gjörbreyttur veruleiki frá því samfélagi sem eldra fólk ólst upp við og lifði við á fullorðinsárum sínum. Sjálfur er ég 45 ára og ólst upp við sveitasíma fyrstu ár ævinnar en svo tók sjálfvirki síminn við og við þekkjum framhaldið. Breytingarnar eru ótrúlega miklar á ekki lengri tíma. Þó svo að meirihluti eldra fólks eigi tölvur eða snjalltæki og noti reglulega þá upplifa sum þeirra aukna einangrun meðal annars vegna þessara samfélagsbreytinga. Sumt eldra fólk getur ekki nýtt tæknina eða þá möguleika sem henni fylgja og verður þá af afþreyingu, samskiptum við fjölskyldu og vini og getur ekki nýtt sér þá þjónustu sem möguleg er á netinu.

Ný námskeið í tæknilæsi fyrir eldra fólk

Í kjölfar útboðs Ríkiskaupa, höfum við í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu undirritað samninga við átta fræðsluaðila um allt land um kennslu í tölvulæsi fyrir eldra fólk. Markhópurinn er fólk eldra en 60 ára sem vill þiggja námskeið í tæknilæsi á snjalltæki, eins og spjaldtölvur og snjallsíma. Um er að ræða sérsniðna kennslu sem hjálpar eldra fólki að nýta sér þjónustu og rafræn samskipti á netinu með það að markmiði að draga úr félagslegri einangrun, njóta afþreyingar á netinu og auka notkun á þjónustusíðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Námskeiðin fela þannig í sér kennslu í notkun rafrænna skilríkja og vefsíðna sem nota þau, heimabanka, netverslun og fræðslu vegna samfélagsmiðla og efnisveitna. Þá verður farið yfir notkun á tölvupósti og önnur rafræn samskipti.

Námskeiðin verða haldin víða og í hverjum landshluta. Gengið hefur verið frá samningi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum sem mun annast námskeið á Suðurnesjum.

Drögum úr einangrun eldra fólks

Ekkert kemur í staðinn fyrir bein samskipti við fólk, en nútímasamfélag býður upp á svo marga fleiri og gefandi samskiptamáta, auk allrar þeirrar þjónustu, frétta og fróðleiks sem hægt er að sækja með nýrri tækni, og geta létt okkur lífið. Það er mikilvægt að draga úr einangrun og einmanaleika fólks og ég hvet fólk eindregið til að nýta sér þessa þjónustu til að öðlast meiri færni á tækniöld nútímasamfélags. Ég hlakka til að sjá viðbrögðin og hvernig við getum lært af þessu verkefni til að draga enn frekar úr félagslegri einangrun eldra fólks.