Frá Sandgerði að Höfn og ekki komin hálfa leið
Ég hef undanfarnar vikur farið yfir kjördæmið þvert og endilangt frá Sandgerði að Höfn í Hornafirði. Með reglulegri viðkomu heima í Vestmannaeyjum. Ég hef þurft að fara hratt yfir og ekki náð að koma við á ölllum þeim stöðum sem ég hefði viljað í hverju bæjarfélagi, hvað þá að fara um sveitirnar.
Suðurkjördæmi er flennistórt, skemmtileg blanda af sjávarplássum og sveitum, rík af menningu og ótrúlega fjölbreyttu landslagi, með hverja náttúruperluna á fætur annarri. Atvinnulífið í kjördæminu er margbreytilegt og svæðið sjálft býður uppá ótal möguleika.
Atvinnuleysi hefur sett svip sinn á kjördæmið undanfarin ár og hefur Reykjanesið orðið verst úti að þessu sinni. Það hefur aldrei gefist vel að hafa öll eggin í sömu körfunni og það þurfa menn að hafa í huga þegar kemur að atvinnuuppbyggingu í kjördæminu.
Húsnæðis- og lánamál hvíla þungt á íbúum kjördæmisins. Á þeim málum þarf að taka. Aðildarviðræður við ESB þarf að klára, það er mikið sem liggur undir í kjördæmi þar sem sjávaútvegur og landbúnaður er fyrirferðarmestur. Það verður svo þjóðin sjálf sem kveður upp úrskurð um inngöngu á grundvelli samkomulagsins.
Á yfirreið minni um Suðurkjördæmi hef ég hitt ótal fjölda fólks og fengið margar góðar og gagnlegar ábeningar, fyrirspurnir, gagnrýni og hvatningu. Öllu þessu mun ég bæta í reynslusarpinn og nýta mér í framtíðinni, vonandi í umboði íbúa í Suðurkjördæmi
Guðrún Erlingsdóttir
Höfundur býður sig fram í 2. - 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar 16. - 17. nóvember nk.