Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Frá bestu loftgæðum í öfgar þeirra verstu
Miðvikudagur 2. janúar 2019 kl. 18:10

Frá bestu loftgæðum í öfgar þeirra verstu

Íbúar Reykjanesbæjar eru afar lánsamir að njóta mikilla loftgæða, þrátt fyrir að vera í næsta nágrenni við umsvifamikinn alþjóðaflugvöll og hafa einu sorpbrennslustöð landsins í bæjarfélaginu (Kalka í Helguvík). Að öðru leyti deila þeir sömu umhverfisáhrifum, t.d. frá umferð, og önnur þéttbýlissvæði í landinu. Þeir njóta jafnframt, með öðrum í byggðum landsins, eins hreinasta orkugjafa sem völ er á í heiminum til húshitunar og raforkuþarfar samfélagsins. Á hinum enda orkugjafa heimsins, þ.e. þess óhreinasta, eru kol. Brennsla þeirra veldur einna mestum mengunar- og eituráhrifum einstakra orkugjafa í andrúmsloftinu.

Tíföldun kolabrennslu

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á vef RÚV þann 12. febrúar 2017 var umfjöllun um áætlaða kolanotkun kísilvera í framtíðinni á Íslandi. Þar kemur fram að heildarársbrennsla kola við kísilframleiðslur verði rúmlega 380 þúsund tonn. Þar af verði brennd 195 þúsund tonn hjá Thorsil og 120 þúsund tonn hjá United Silicon (núna Stakksberg, næst?).

Í tölum frá Hagstofunni má sjá að brennsla kola á Íslandi var í 150 ár (1840–1990) að meðaltali 39 þúsund tonn á ári. Mest var flutt inn árið 1937, um 178 þúsund tonn. Áformað er sem sagt að nánast tífalda árs brennslu kola á Íslandi og bróðurpartinn í Helguvík.

Gróðurhúsa- og eituráhrifin

Við brennslu á kolum myndast mörg mishættuleg efnasambönd. Tvö afar skaðleg efnasambönd eru í mestu magni. I. Koltvísýringur/Koldíoxíð (CO2) og II. Brennisteinstvíoxið (SO2).

Fyrir hvert eitt tonn af kolum má gera ráð fyrir að allt að 2,86 tonn af koldíoxíð (CO2)  fari út í andrúmsloftið. Samanlögð losun Helguvíkurkísilveranna verður ef allt fer sem horfir nokkuð yfir 2.000 tonnum á sólarhring. Það verður þá sérstakt andsvar Reykjanesbæjar til Parísarsamkomulagsins um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Bítla- og íþróttabærinn okkar  verður þá einnig frægur fyrir að menga mest og vera skítugast sveitarfélaga á Íslandi.

Þegar kemur að brennisteinstvíoxíð (SO2) ræðst það af hreinleika kolanna og brennslu hitanum hversu miklu eitri verksmiðjurnar munu dreifa út frá Helguvík. Matsáætlun Verkís verkfræðistofu gerir ráð fyrir 1,5% af hverju tonni brenndra kola hjá Stakksbergi, sem verða rúmlega fjögur tonn á dag. Þekkt er losun allt að 6% af hverju tonni við lágan brennslu hita og óhrein kol. Við bestu nýtingu, en að viðbættri losun Thorsil mun losunin þá verða tólf tonn á dag og verður, ef nýtingin er 6%, tæp 49 tonn. Það er meiri SO2-losun en allur skipafloti og flugfloti landsins losar að meðaltali á dag.

Í skýrslu sem Umhverfis- og auðlindaráðuneytið/Velferðarráðuneytið gáfu út:

Hreint loft, betri heilsa í apríl 2013, á bls. 17, er athyglisverð málsgrein um áhrif m.a. kolabrennslu (bruna jarðefnaeldsneytis).

„Brennisteinsdíoxíð hefur slæm áhrif á öndunarfæri, einkum hjá þeim sem eru undir líkamlegu álagi vegna þess að þá er öndunin tíðari og SO2 mengaða loftið gengur lengra niður í lungu. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni frá 2011 gætir heilsufarsáhrifa brennisteinsdíoxíðs við mun lægri styrk en áður var haldið. Um er að ræða styrk sem er talsvert lægri en núgildandi mörk samkvæmt reglum Evrópusambandsins sem íslensk mörk byggja á. Mikilvægt er því að halda styrk þess eins lágum og kostur er.“

Svo má einnig benda á mikinn tæringarmátt brennisteinsoxíðeitursins. Á sólskinsdögum, þegar hæga norðanáttin leikur við menn og málleysingja í Reykjanesbæ, er viðbúið að máttur SO2 verði mestur við að tæra silfrið og aðra góðmálma bæjarbúa.

Verða loftgæði og heilsa íbúa látin í hendur fjárfesta í Helguvík?

Frá bestu lífsgæðum í öfgar þeirra verstu er baráttan um þessar mundir. Fylgjendur og talsmenn kísilvinnslu í Helguvík minnast varla orði á kolefnisspor og því síður á versnandi loftgæði og afleiðingar þess. Benda á kísilver sem eru í miðbæjum norskra bæja, tala um hveitifræ litlu gulu hænunnar og mikilvægi framlags Helguvíkurkísilveranna til tækniframfara í heiminum. Þeir gefa lítið fyrir upplýsingar um framlagið til ört vaxandi gróðurhúsaáhrifa, aukningu á súrnun sjávar hér á norðurhveli eða neikvæðum heilsufarsáhrifum á fólkið og dýrin sem ala sinn aldur í nágrenninu.

Skrifað er (Matteus 7.6):

„Gefið ekki hundum það sem heilagt er, og kastið eigi perlum yðar fyrir svín. Þau mundu troða þær undir fótum, og þeir snúa sér við og rífa yður í sig“.

Við eigum eftir að sjá hvort „kerfið“ og fulltrúar íbúa Reykjanesbæjar meta meira þær heilögu perlur, sem loftgæði og heilsa íbúanna er, eða hundsbitin og meðferðina á perlunum ef þeir láta það í hendur fjárfesta í Helguvík.

Þetta árið og vonandi til framtíðar munum við halda ó-eitruð gleðileg jól.


Reykjanesbæ 16. desember 2018.

Tómas Láruson.