Fótbolti, fótbolti, fótbolti...
Þegar ég var 11 - 12 ára æfði ég fótbolta með Val sem og nokkrir vinir mínir. Ekki get ég sagt að ég hafi verið með fótboltagenin í mér en á góðum degi var ég víst assgoti góður markmaður. Mér fannst gaman í fótbolta og oft var tuðrunni sparkað langt fram á kvöld á fótboltavellinum á Klambratúninu á fallegu sumarkvöldi. En svo hætti ég að æfa fótbolta. Ástæðan var sú að það fór að verða leiðinlegt. Allt í einu varð þetta voða alvarlegt og krefjandi, ekki lengur leikur, heldur átti maður að stunda þetta af alvörugefnum þunga sem mér fannst hreint svakalega leiðinlegt og reyndar nokkrum vinum mínum líka svo við hættum en héldum nú áfram að leika okkur í boltanum því það var gaman. Þetta voru skemmtilegir tímar.
Nú er ég „nokkrum“ árum eldri og á syni sem stunda fótbolta, af mis miklum áhuga þó. Þeir njóta þess að leika sér í fótbolta en ég verð var við það, að stundum upplifa þeir þetta sem óttalega kvöð og stundum eru þeir að gera þetta af skyldurækni við þjálfarann, ekki áhuga. Leikjum er búið að dreyfa á allar helgar vegna Faxaflóamóts sem stendur vikum saman. Maður gæti haldið að þjálfarar geri ráð fyrir að líf hverrar fjöskyldu snúist bara um fótbolta og að fólk hafi almennt ekki um annað að hugsa um helgar. Og Íslandsmótið nálgast...
Ég hef oft furðað mig á af hverju svona mikill tími fer í fótbolta í fréttatímum sjónvarps. Stundum gæti maður haldið að engar aðrar íþróttir væru til. Svo á nánast hvert einasta sveitarfélag á landinu flotta fótboltavelli með stúku og nú er nýjasta tískan að reisa fótboltahús, það er víst algjört möst. Eitt slíkt var reist í bæjarfélaginu sem ég bý í (var reyndar kallað „fjölnotaíþróttahús“ en er bara notað undir fótbolta) fyrir lítinn hálfan milljarð tæplega og verður því miður að teljast ein ljótasta bygging bæjarins.
En þetta er nú gott mál allt saman því fótbolti hefur svo mikið forvarnargildi...er það ekki? Krakkarnir fá góðar fyrirmyndir í þjálfurum sínum (sem reyndar margir eru soldið skrýtnir á svipinn sökum munntóbaksnotkunar) og svo allir atvinnumennirnir; Ronaldo, Tevez, Perez, Cole, Beckham o.fl. sem þéna meira á viku en venjulegt fólk á nokkrum árum og vaða í allskonar flottum gellum, súpermódelum, leikkonum og Guð má vita hvað. Vissulega er ég svolítið kaldhæðinn því ég er stundum ekki alveg viss um forvarnargildið. Kannski hefur það sitt að segja að tveir gamlir félagar mínir sem voru lengi vel atvinnumenn í fótbolta enduðu illa vegna vímuefnamisnotkunar.
En...hreyfingin er góð, á því er enginn vafi og félagsskapurinn líka oft á tíðum. En af hverju er svona mikið einblínt á karlafótbolta? Samkvæmt styrkleikalista FIFA er Íslenska karlalandsliðið með þeim lélegustu í heimi á meðan kvennalandsliðið er með þeim bestu. Af hverju ekki að setja megnið af fénu sem fer í kallaboltann í kvennaboltann eða í aðrar íþróttir... eða kannski menningu?
Ég tala stundum um að hinn eða þessi sé „fótboltafatlaður“. Það er í raun dómharkan í mér sem brýst þarna upp á yfirborðið. Ég nota það yfir fólk sem virðist ekki geta talað um neitt nema fótbolta og eru nánast helsjúkir fótboltafíklar. Á minni lífstíð hef ég á stundum starfað á karlavinnustöðum þar sem nánast var ekki um annað rætt en fótbolta í kaffitímum. Jú, stundum brjóst og píkur. Ef ég reyndi að brydda upp á öðru umræðuefni þá var því stundum mætt með andartaks þögn, skrítnum svipbrigðum og svo var haldið áfram. Ég var „þessi skrýtni“.
Stundum upplifi ég svona fótboltafíkla sem fatlaða. Þeir eiga erfitt með að ræða aðra hluti einsog barnauppeldi, pólítík, umhverfismál, listir, menningu eða aðrar íþróttir. Þetta er svolítið eins og að tala við þursa finnst manni. Á þeim stundum liggur við að maður haldi að fótbolti geri fólk svolítið... takmarkað. Að ræða við handboltafólk, körfuboltafólk, fimleikafólk, það er allt öðruvísi; meiri víðsýni, fjölbreytni, skemmtilegri umræður, það er mín reynsla. Og hvað er það fyrsta sem kemur upp í hausinn á fólki þegar minnst er á fótbolta? Ein vinkona mín sagði: „Bjór og fullir kallar“. Hmmmm...
Ekki skilja mig þannig að ég hafi eitthvað á móti fótbolta. Mér finnst fótbolti skemmtilegur að spila og hvet alla krakka til að leika sér í fótbolta. En, ég hef smá efasemdir um forvarnargildið í því að þjálfa fótbolta á svona alvörugefinn og leiðinlegan hátt og vildi óska þess að krakkarnir mínir fengju að leika sér meira í boltanum og hafa gaman.
* Ég vildi óska þess að þetta væri ekki svona dýrt og mikið umstang.
* Ég vildi óska þess að fótboltaþjálfarar og fótboltalið tækju sig ekki svona alvarlega. Mig grunar nefnilega að ef þetta væri meiri leikur og gaman þá gæti okkur Íslendingum kannski gengið betur (munið þið eftir þegar Frakkarnir rassskelltu okkur í handbolta um árið, nýkomnir af djamminu?)
* Ég vildi óska þess að minna væri gert úr mikilvægi fótbolta gagnvart öðrum íþróttum og að þessi mikla peningasóun sem á sér stað í fótboltanum (ofur leikmannalaun, fótboltahús og allt það) yrði hætt, allavega minnkuð til muna.
* Ég vildi óska þess að meira væri sýnt frá öðrum íþróttum í sjónvarpi en bara fótbolta og einnig af list og menningarviðburðum. Það gleymist nefnilega að Ísland er hvað þekktast á alþjóðavettvangi fyrir menningu sína (t.d. Björk, SigurRós, Erró, Yrsu Sigurðar, Arnald Indriða, Kristinn Sigmunds o.fl.). Sorrý, það þýðir ekki að þræta við mig um það, ég hef komið til yfir 30 landa á æfinni og veit það fyrir víst.
Það væri líka gaman að sjá rannsóknir sem gerðar hafa verið á forvarnargildi fótboltaiðkunar hjá krökkum. Ég auglýsi hér með eftir þeim.
Ég endurtek að ég hef ekkert á móti fótbolta. Ég hef afturámóti mikið á móti öllu þessu rugli sem felst í peningasóun, leiðinlegu alvörugefni, allt of mikilli fjölmiðlaumfjöllun í kringum hann og þeirri fótboltaeinstefnu sem er allt of rík í þjóðfélaginu.
Fótbolti er leikur. Höfum gaman og leyfum öðrum að hafa gaman, það er fleira til en bara fótbolti!
Og þið fótboltafíklar; Go get a life! ;-)
Halldór Lárusson
Grindavík