Föstudagspistill bæjarstjórans í Vogum um Suðurnesjalínu 2
Við hjá Landsneti störfum í umhverfi þar sem samfélagið og viðskiptavinir okkar gera miklar kröfur varðandi góða þjónustu, skilvirkan rekstur, stöðuga gjaldskrá og gott upplýsingaflæði. Þess vegna finnst okkur frábært að bæjarstjórinn í Vogum, Ásgeir Eiríksson, haldi úti pistlum á heimasíðu sveitarfélagsins og upplýsi íbúa og um leiða aðra um það sem brennur á honum og sveitarfélaginu. Upplýsingaflæði er alltaf af hinu góða en það eru nokkrir hlutir í pistli bæjarstjórans sem mig langar til að velta upp.
Suðurnesjalína 2 er ein mikilvægasta framkvæmdin í flutningskerfinu og hún skiptir sköpum þegar kemur að því að tryggja raforkuöryggi fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu. Mikil áhugi er hjá fyrirtækjum að tengjast við flutningskerfið á Suðurnesjum, allt að fjórðungur nýrra fyrirspurna sem koma til okkar eru tengdar þessu svæði. En skortur á flutningsgetu raforku útilokar nær alveg möguleika á að hægt sé að vinna þær áfram - því miður.
Öll sveitarfélögin á línuleið Suðurnesjalínu 2, voru búin að gefa leyfi fyrir framkvæmdinni nema Sveitarfélagið Vogar. Það má alveg velta fyrir sér hvort það fái staðist að eitt sveitarfélag geti staðið í vegi fyrir framkvæmd sem skiptir öll hin sveitarfélögin miklu máli. Ógilding úrskurðarnefndarinnar á ákvörðunar Sveitarfélagsins Voga byggðist m.a. á því að sveitarstjórn vék í engu að öðrum almannahagsmunum en þeim sem felast í umhverfislegum ávinningi, t.d. þeim sem lúta að flutningskerfi raforku á Suðurnesjum. Ákvarðanir þeirra sveitarfélaga sem gáfu út leyfi fyrir framkvæmdinni voru ekki haldnar þessum ágalla. Það hlýtur að vera umhugsunarefni að framkvæmdir við mikilvæga innviði geti lent í slíkri stöðu en að þar hljóti völd og ábyrgð að þurfa að fara saman.
Ásgeir segir sveitarfélagið hafa lagt sig fram við vinna að lausn á málinu og það höfum við líka gert. Við fórum í umfangsmikið umhverfismat, gerðum ítarlega valkostagreiningar, fengum náttúruvísindafólk til liðs við okkur og héldum úti samtali við sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila á línuleiðinni. Málamiðlunarleiðin sem hann talar um felst í því að leggja jarðstreng á svæði þar sem öll gögn sem við höfum lagt fram sýna slíka lögn óörugga. Þá fellur jarðstrengslausnin ekki að gildandi lögum og reglum, er í andstöðu við stefnu stjórnvalda sem og ákvæði raforkulaga um skilvirkni og hagkvæmni - og þar af leiðindi er hún ekki raunhæfur kostur.
Ljóst er af öllum gögnum að rekstraröryggi jarðstrengs er verra en loftlínu m.t.t. jarðskjálfta og sprunguhreyfinga. Hluti þess jarðstrengs sem Sveitarfélagið Vogar hyggst nú setja á aðalskipulag sitt, og þá eini möguleikinn um nýja tengingu flutningskerfisins um sveitarfélagið, liggur um þekkt misgengissvæði. Við hjá Landsneti teljum þetta áhættusamar aðstæður fyrir jarðstreng sem á að gegna mikilvægu hlutverki í flutningskerfinu fyrir Suðurnesin
Hvort Sveitarfélagið Vogar telur það líka málamiðlun að leggja fram breytingu á aðalskipulagi þar sem Suðurnesjalína 2 verði einungis bundin við jarðstreng innan sveitarfélagsins Voga veit ég ekki. En það er ljóst að boðuð skipulagsbreyting Sveitarfélagsins Voga hefur áhrif út fyrir sveitarfélagið. Við höfum vakið athygli annarra sveitarfélaga sem eiga, auk Sveitarfélagsins Voga, aðild að Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja á stöðu málsins og alvarleika þess.
Hvað gerist næst – ég veit það ekki en á meðan býr Reykjanesið við óöruggt afhendingaröryggi rafmagns og töpuð tækifæri.
Eins og Ásgeir er ávallt reiðubúinn að veita upplýsingar um sjónarmið sveitarfélagsins í þessu máli þá erum við hjá Landsneti það líka. Saman þreyjum þorrann og Góuna – eftir það kemur vonandi betri tíð fyrir afhendingaröryggi íbúa og fyrirtækja á Reykjanesinu.
Steinunn Þorsteinsdóttir,
upplýsingafulltrúi Landsnets.