Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fóstrið mikilvægur kjósandi
Föstudagur 26. maí 2006 kl. 09:43

Fóstrið mikilvægur kjósandi

Fyrirsögnin höfðar til þess tímamótasamnings sem Reykjanesbær og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja undirrituðu nýverið um uppbyggingu sálfélagslegrar þjónustu við fólk á aldrinum núll til tveggja ára. Hér er um að ræða forvarnarverkefni í þeirri mynd sem upphaflega var kynnt af Heilsugæslustöð Akureyrar. Þegar barn fæðist inn í heim vandamála og umhverfi sem mótast af félagslegum hindrunum er eins víst að það beri þess merki alla ævi. Því lengi býr af fyrstu gerð. Vegur hamingjunnar er vandrataður, en sjáist í upphafi greinilegir vegatálmar á þeirri leið er best að reyna ryðja þeim úr vegi sem fyrst.

Tengslamyndun móður við barn sitt í upphafi er lykill að farsæld þess í framtíðinni. Ef tekst að auðvelda foreldrum að rækta sitt hlutverk vel þegar í upphafi má ætla að slíkt geti stuðlað að uppbyggingu einstaklings sem leggur af stað lífsbrautina með gott veganesti í farteskinu. Lykillinn af greiningu vandamála hefst í mæðraverndinni þegar móðir birtist þar upphaflega til innskriftar. Sjáist augljósir hnökrar á því sálfélagslega umhverfi sem hún býr við er mikilvægt að koma strax inn með markviss úrræði til að ráða þar bót á.

Reykjanesbær hefur gert sér grein fyrir þessu mikilvægi og brugðist við með þeirri framsýni sem hér hefur einkennt hið mikla uppbyggingastarf sem farið hefur fram á undanförnum misserum.
Það eru spennandi tímar framundan. Er hugsanlegt að starfið skili sér með minnkandi inngripum félagsþjónustunnar í framtíðinni og öllum þeim kostnaði sem því fylgir? Getur það verið að svokölluð SOS uppeldisnámsskeið undir stjórn Gylfa Jóns Gylfasonar sem njóta hér vaxandi virðingar hafi þegar skilað sér með fækkun innlagna á bráðageðdeil unglinga?

Gæti samstarf sem um getur orðið til þess auka almenna velferð þegna Reykjanesbæjar.
Hér er spurt verðugra spurninga sem aðeins er svarað með vísindalegum aðferðum. Hér finnst því nógur efniviður til verkefna á háskólastigi.

Aðspurður um, hvert eitt verkefni bæjarstjórinn Árni Sigfússon teldi verðugast að leggja áherslu á, þá var það að sjá þess glögg merki að ungu kynslóðinni farnaðist betur.

Þess vegna er vilji fyrir því að þetta starf haldi áfram. Veitum því brautargengi. Lifum og njótum.

Konráð Lúðviksson, lækningaforstjóri
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024