Forvarnarfulltrúi fyrir samfélag í sókn!
Reykjanesbær er heilsueflandi samfélag og þátttakandi í verkefni Landlæknis þar að lútandi. Heilsueflandi samfélag leggur áherslu á að heilsa og líðan íbúa sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótum og á öllum sviðum. Áhrifaþættir heilsu og vellíðunar eru fjölmargir en segja má að forvarnir skipi þar veigamikinn sess.
Forvarnir snúast um að efla heilbrigði, koma í veg fyrir sjúkdóma og að beita viðeigandi íhlutun til að draga úr sjúkdómsþróun og fylgikvillum.
Samfylking og óháðir ætla að ráða forvarnarfulltrúa til að stýra og leiða forvarnarstarf í bæjarfélaginu. Markmið forvarnarfulltrúa væri að vera í góðum tengslum við alla hlutaðeigandi aðila, greina þörfina hverju sinni og skapa forvörnum enn ríkari sess í öllu starfi er snýr að börnum og ungmennum. Forvarnarfulltrúa væri m.a. ætlað að;
Vinna að stefnumótun í forvarnarmálum, halda utan um og uppfæra forvarnarstefnu Reykjanesbæjar.
Sameina markmið, áherslu og stefnu forvarna í öllum skólum Reykjanesbæjar.
Efla þátt forvarna og skapa þeim sess innan fræðsluráðs og íþrótta- og tómstundaráðs.
Stýra starfi SAMTAKA hópsins.
Vinna í nánu samstarfi við yfirvöld, félagasamtök, félagsmiðstöðvar, skóla og íþróttafélög.
Sitja fundi með ungmennaráði.
Gera kannanir og greina útgefnar skýrslur og önnur gögn.
Starf forvarnarfulltrúa hefur verið starfrækt hjá fjölmörgum sveitarfélögum um árabil með ágætum árangri.
Tryggjum öllum nemdnum forvarnarfræðslu
Í dag fer SAMTAKA-hópurinn fyrir forvarnarstarfi í Reykjanesbæ, undir stjórn íþrótta- og tómstundafulltrúa. Þessi hópur hefur unnið öflugt og flott starf. Engu að síður er fyrirkomulag grunnskóla, íþróttafélaga og félagasamtaka þannig að sótt er um styrk í forvarnarsjóð íþrótta- og tómstundaráðs fyrir einstökum forvarnarverkefnum.
Vissulega geta áherslur verið mismunandi á milli skóla en oftast eiga þessi verkefni erindi til allra okkar barna og ungmenna. Skólar og foreldrafélög þurfa að hafa ákveðið svigrúm til að sækja í sjóð sem þennan en með starfi forvarnarfulltrúa er hægt að tryggja að allir nemendur í skólum Reykjanesbæjar fái sömu grunnfræðslu eins og fræðslu um fíkniefni.
Snemmtæk íhlutun
Við sem samfélag berum ábyrgð á lífi og heilsu barna okkar. Flest þekkjum við máltæki „Of seint er að byrgja bruninn þá barnið er dottið ofan í”. Með snemmtækri íhlutun og öflugu forvarnarstarfi getum við komið í veg fyrir slæma eða erfiða lífsreynslu barna okkar og ungmenna sem hafa neikvæð áhrif á heilsu þeirra og líðan. Það á að vera markmið okkar og skylda. Með þessu skrefi, að ráða í starf forvarnarfulltrúa, erum við einhuga að því að gera enn betur í þessum málaflokki því besta meðferðin eru forvarnir. Það er hagur okkar allra, hagur fyrir samfélag í sókn!
Guðný Birna, Jóhanna Björk, Jón Haukur og Þórdís
skipa sæti á S-lista Samfylkingar og óháðra.