Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Forvarnadagur í grunnskólum á fimmtudaginn
Mánudagur 25. september 2006 kl. 14:03

Forvarnadagur í grunnskólum á fimmtudaginn

Forvarnardagur verður haldinn í öllum grunnskólum landsins þann 28. september n.k. Forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að þeir unglingar sem verja í það minnsta klukkustund á dag með fjölskyldum sínum, eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.
Niðurstöðurnar byggja á rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem hafa um árabil rannsakað áhættuhegðun ungmenna og hafa þær vakið alþjóðlega eftirtekt.

Í því sambandi telur undirritaður rétt að benda foreldrum á að menningar- íþrótta- og tómstundasvið Reykjanesbæjar rekur tvær öflugar miðstöðvar. Önnur hefur verið starfrækt frá árinu 1983 og nefnist Fjörheimar og er fyrir nemendur í 8. – 10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar og hin er 88 Húsið og er fyrir ungt fólk sem komið er af grunnskóla aldri. Hornsteinninn í starfi Fjörheima og 88 Hússins er ungmennalýðræði og hafa því ungmennin sem taka þátt heilmikið um starfið að segja. Fjörheimar hafa staðið fyrir svokölluðum Fjörleik frá árinu 1999 en um er að ræða leik sem hefur það að markmiði að þjálfa ungmenni til virkrar þátttöku og að vinna saman sem lið.

Í 88 Húsinu er starfrækt húsráð skipað ungu fólki. Reynt er að hafa sem fjölbreyttasta húsrásmeðlimi s.s. einhvern frá tónlistargeiranum og leik- og myndlist svo eitthvað sé nefnt. Einnig stendur húsið félagasamtökum og vinahópum til boða í samráði og samstarfi við starfsfólk hússins.
Þeir sem vilja kynna sér nánar starfssemi 88 Hússins og Fjörheima er bent á heimasíður þeirra sem eru á slóðinni www.88.is og www.fjorheimar.is eða að hafa samband við Hafþór Birgisson forstöðumann Fjörheima og 88 Hússins í síma 898-1394

Kær forvarnarkveðja,

Hafþór Barði Birgisson
forstöðumaður Fjörheima og 88 Hússins
BA tómstunda- og félagsmálafræði KHÍ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024