Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Förum heim saman á Ljósanótt
Föstudagur 6. september 2013 kl. 10:27

Förum heim saman á Ljósanótt

Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð í Reykjanesbæ verður haldin í fjórtánda sinn frá 5. til 8. september. Reykjanesbær hefur ávallt haft það að leiðarljósi að Ljósanótt sé fjölskylduhátíð og hvetur fjölskyldur úr öllum áttum að sameinast með okkur í Reykjanesbæ á þessum tímamótum. Lögð er áhersla á að dagskráratriði hátíðarinnar höfði til fólks á öllum aldri og mikilvægt er að fjölskyldur fari saman heim að lokinni dagskrá bæjarins á meðan hátíðin stendur yfir.

Á föstudagskvöldið verður unglingaball fyrir 8.-10. bekk í Stapanum þar sem frítt er inn fyrir foreldra. Reykjanesbær hvetur foreldra að nýta sér þetta tækifæri til að fylgjast með börnunum og tryggja að þau fari heim að loknu balli í fylgd með fullorðnum.

Á laugardagskvöldið verður rekið athvarf í öryggismiðstöð að Hafnargötu 8.  Að athvarfinu standa Fjölskyldu- og félagsþjónustan, Útideildin, Lögreglan og Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ. Börn og ungmenni sem eru ein á ferli eftir að skipulagðri dagskrá lýkur og/eða eru undir áhrifum áfengis eða vímuefna verða færð í athvarfið og foreldrum gert að sækja þau.  Á síðasta ári var ekkert barn, sem búsett er í Reykjanesbæ, fært í athvarfið, höldum áfram þeirri góðu vinnu að draga úr unglingadrykkju og að börn okkar séu ekki ein á almannafæri að loknum útivistartíma. Frá 1. september skulu börn 12 ára og yngri ekki vera lengur úti en til kl. 20.00 nema í fylgd með fullorðnum og börn á aldrinum 13-16 ára skulu ekki vera ein á almannafæri eftir klukkan 22.00.

Foreldrar eigum góðar stundir með börnunum okkar og tryggjum að þau fari með okkur heim á Ljósanótt.  

Hátíðarkveðjur
María Gunnarsdóttir
Forstöðumaður barnaverndar Reykjanesbæjar

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024