Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Forstjóri Hitaveitu Suðurnesja svarar gagnrýni
Mánudagur 11. júlí 2005 kl. 13:07

Forstjóri Hitaveitu Suðurnesja svarar gagnrýni

Í Víkurfréttum þann 23. júní voru tvær greinar frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, önnur frá framkvæmdastjóra þeirra og hinum frá stjórnarmanni sem auk þess titlar sig heilbrigðisfulltrúa og svæðisleiðsögumanns á Reykjanesi. Á vefsíðu Víkurfrétta kom síðan þriðja greinin frá samtökunum, nú frá stjórnarmanni og jarðfræðingi. Ekki verður hjá komist að gera við þessar greinar nokkrar leiðréttingar og athugasemdir.

“Upplifun ferðamanna”
 
Það er nokkuð ljóst að nýútskrifaður svæðisleiðsögumaður um Reykjanes finnur nokkuð til sín og telur ekki aðra en hann og hans félaga skynja upplifun ferðamanna á svæðinu. Þar sem þar er um einstaklingsbundna tilfinningu eða skoðun að ræða, þá ætla ég mér ekki þá dul að kveða upp úrskurð um hvað er rétt og hvað er rangt varðandi þessa upplifun. Í matinu var hinsvegar haft m.a. samband við þá sem um árabil hafa haft af því atvinnu að flytja ferðamenn á og um svæðið svo sem Kynnisferðir, SBK o.fl. og réði þar ekki hrepparígur vali. Niðurstaða þessarar lauslegu könnunar var sú, að menn töldu línuna hafa lítil eða engin áhrif á upplifun ferðamanna. Að sjálfsögðu er það engin sönnun, frekar en persónuleg skoðun nýútskrifaðs svæðisleiðsögumanns, þar sem að sjálfsögðu hefur enginn reynslu af upplifun ferðamanna af línu sem ekki hefur verið byggð. Ég persónulega hef nokkuð oft farið með misstóra hópa á Reykjanes og hef þá eindregnu skoðun, að sé litið til svæðisins og þeirra mannvirkja sem þar eru og eru að koma, þá hafi línan lítil eða engin neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna. Það koma allir til með að vita og sjá að þarna er stórt orkuver og allflestir líta á línu sem eðlilegan hluta orkuvers. Ég vil að lokum taka fram, að HS er mjög ánægð með vönduð og góð vinnubrögð Línuhönnur við gerð þessarar skýrslu og erum því mjög ósammála fullyrðingum heilbrigðisfulltrúans/svæðisleiðsögumannsins/stjórnarmannsins sem að mínu mati jaðra við atvinnuróg.

“Tæknileg vandamál”

Það eru aðallega tvennskonar tæknileg vandamál við strenglögn sem bent hefur verið á. Fyrst má nefna að það er ákveðin áhætta að leggja jarðstreng í virkt jarðhita- og jarðskjálftasvæði og þar er lína mun öruggari kostur. Hitt er það, að ef til bilana kemur á strengnum þá þarf sérfræðinga erlendis frá til viðgerða, en bilanir á háspennulínu getum við sjálfir gert við. Viðgerðartími á streng getur því verið allt að viku en kannski hálfur sólarhringur á línu. Það er þó rétt að leggja áherslu á að líkur á bilunum eru mjög litlar. Þegar litið er til þessara tveggja atriða má ljóst vera, að samanburður við “heim allan” er marklítill þar sem hvorugt atriðið á við þar.


“Hellisheiðin á Reykjanes”


Ég ætla mér ekki að blanda mér í umræðu um “björgun Þjórsárvera” eða “flutning Hellisheiðarinnar” en vil mótmæla fullyrðingu framkvæmdastjóra Náttúruverndarsamtaka Íslands um að háspennulínan setji mark sitt á landslagið og blasi við á öllum helstu áningarstöðum ferðamanna. Í matsskýrslunni er sýnt fram á að víðast er hún mjög lítt áberandi og það þarf að velja sérstaka lágpunkta í landslaginu, eins og framkvæmdastjórinn kýs að gera í þeirri mynd sem hann birtir, til að línan verði áberandi. Við teljum myndina sem hann kýs að birta mjög villandi og gefa mjög ranga mynd og t.d. er sverleiki leiðarans (vírsins) í línunni úr öllu hlutfalli við umhverfi sitt.

“Sparnaður um 1,5%”

Framkvæmdastjórinn telur litla ástæðu til að spara 150 m.kr. þar sem þær séu bara 1,5% af heildinni og langt innan skekkjumarka (hvað skekkjumörkin koma málinu við er mér hulin ráðgáta). Við erum þessu ósammála, við teljum að hver króna og hvert % í slíkri fjárfestingu skipti máli og verði að hafa marktækan tilgang, en svo teljum við alls ekki vera í þessu tifelli þar sem ávinningurinn af fjárfestingunni (jarðstrengur í stað línu) sé lítill sem enginn. HS hf hefur hinsvegar nokkuð metnaðarfullar áætlanir um byggingu aðstöðu til kynningar á starfseminni og svæðinu í stöðvarhúsinu og teljum við þessum fjármunum sé t.d. mun betur varið til þess. Auk þess verður eins og í Svartsengi lögð áhersla á snyrtilegt umhverfi og góðan frágang.
Fyrst framkvæmdastjórinn kýs að tala um % er rétt að skýra fjárfestinguna aðeins. Í raun er um “tvær” fjárfestingar að ræða. Í fyrsta lagi orkuver með tilheyrandi gufuöflun o.fl. sem HS hf á og rekur. Í öðru lagi er hinsvegar háspennulínan og stöðvar með endabúnaði á báðum endum sem HS hf í þessu tilviki reisir og á, en verður síðan að leigja Landsneti hf í samræmi við nýsett raforkulög. Fjárfesting HS hf í orkuveri er áætluð um 10 milljarðar og greiðist í framtíðinni með tekjum af raforkusölu. Fjárfestingin í línunni og endastöðvunum verður hinsvegar fjármögnuð með leigutekjum frá Landsneti og er áætlaður heildarkostnaður með endabúnaði um 1.100 m.kr. Þetta er síðasta slíka framkvæmdin sem byggð verður af öðrum en Landsneti hf samkvæmt lögunum og ef beita á % reikningi framkvæmdastjórans væri rétt að miða bara við þá framkvæmd og þá er um að ræða allt að 15% kostnaðarauka. Það má fá enn hærri % tölu ef einungis er litið til línunnar sjálfrar en hún er um 15 km og er áætluð kosta um 300 m.kr. og þá er hækkunin um 50%.  

“Línan .. fyrsta af mörgum”

Lína sem áætlað er að reisa er byggð fyrir 220 kV spennu og flutningsgeta hennar 3 – 400 MW. Sú virkjun sem nú er í byggingu er 100 MW og fyrir hana væri nóg að byggja 132 kV línu en hún væri þá fulllestuð frá upphafi. Því er línan byggð fyrir 220 kV og því þarf jafngildi 2 – 3 Reykjanesvirkjana til viðbótar til að þörf verði á annarri línu. Bjartsýnustu væntingar um virkjanir á svæðinu gera ekki ráð fyrir slíku um fyrirsjáanlega framtíð og í öllu falli ekki næstu 20 – 30 árin a.m.k.

“ .. reisa línuna án þess að fara með hana í löggilt mat á umhverfisáhrifum”

Framkvæmdastjórinn kýs að vera með aðdróttanir og gefa í skyn að HS hf hafi með einhverjum hætti ætlað að ganga á svig við lög um mat á umhverfisáhrifum. Sá ferill sem nú er í gangi hófst fyrir sjö og hálfu ári er gerð fyrsta umhverfismatsins hófst og síðar var gengið í gegnum allann ferilinn á nýjan leik (á heimasíðu HS hf er að finna ítarlega greinargerð Alberts Albertssonar um ferilinn allann). Á þeim tíma urðum við að staðsetja til bráðbirgða öll mannvirki, þó þekking á svæðinu væri á þeim tíma í raun allt of lítill til að taka slíkar ákvarðanir. Matsferillinn á jarðhita er hinsvegar svo óraunhæfur, ósveigjanlegur og úr takt við raunveruleikann að slíkt verður að gera svo stofnanirnar í Reykjavík geti hafið sína vinnu. Stöðvarhúsið var á þeim tíma staðsett inn á borsvæðinu með kæliturni og gert ráð fyrir stuttum jarðstreng síðasta spölinn sem þó var misráðið. Þegar boranir háhitahola og hönnunarvinna hófst kom í ljós, að umtalsverðar breytingar þurfti að gera frá fyrstu áætlunum. Sú viðamesta var færsla á orkuverinu í vestur og norður um tæpan kílómeter og sjókæling í stað kæliturns og fóru þessar breytingar í lögbundið ferli. Varðandi línuna leiddi færsla orkuversins til þess að breytingar varð að gera frá upphaflegum áætlunum. Ætti að halda sig við óbreytta línu þyrfti strenglögnin að lengjast um tæpan kílómeter. Niðurstaða okkar var sú að þar sem orkuverið væri komið vestar og norðar væri eðlilegra að fara með línu alla leið og nú norðan Sýrfells og hún þá lengra frá Gunnuhver, helstu jarðhitasvæðunum og Valahnjúk. Þessi breyting fór síðan eðlilega leið samkvæmt lögum. HS hf taldi og telur enn að þetta sé lítil breyting og óskaði staðfestingu á því, en niðurstaðan Skipulagsstofnunar var sú að þetta væri umtalsverð breyting sem skyldi fara í lögformlegt umhverfismat. Þetta kærði HS hf til umhverfisráðherra sem hafnaði kröfu HS hf þremur mánuðum og þremur vikum eftir kæruna, en samkvæmt lögum á úrskurður að liggja fyrir innann 4 vikna. Framgangur HS hf í þessu máli hefur verið í samræmi við lög og væri betur að Umhverfisráðuneyti og undirstofnanir þess færu að lögum og virtu lögboðna fresti. Ein megin ástæða þess að talið var nauðsynlegt að fara í formlegt umhverfismat var sú, að með því væri aðkoma almennings að málinu tryggð. Við bentum á, að þó niðurstaðan væri sú, að ekki væri ráðist í tímafrekt og kostnaðarsamt mat á umhverfisáhrifum, þar sem nánast öll gögn lágu þegar fyrir, þá hefði almenningur aðkomu að málinu þar sem breyta yrði deiliskipulagi á svæðinu. Það þarf einnig að auglýsa þannig að almenningur gæti þá gert athugasemdir. Svörin sem við fengum voru þau, að það ætti ekki að nota deiliskipulag sem lögbundið mat á umhverfisáhrifum. Við getum skilið það, ef um væri að ræða eitthvað vísindalegt mat svo sem á fornleifum, fuglalífi, gróðri o.s.fr., en ef megintilgangur er aðkoma almennings teljum við það fullnægjandi.

”háspennulínur flokkast undir líti á landslaginu”

Stjórnarmaðurinn og jarðfræðingurinn fer mikinn varðandi eyðileggingu ”stóreflis” háspennulínu o.s.fr. Við lestur greinarinnar mætti halda að á Reykjanesi væri ekki annað en sandorpin hraun, Gunnuhver, Stampagígar og önnur náttúrufyrirbæri og línan því boðflenna í þessari fallegu mynd, sem svæðið sannarlega er. Staðreyndin er hinsvegar sú að þarna er gömul saltverksmiðja sem hvergi teldist til prýði, þarna er fyrirtæki sem nýtir gufu til hausaþurrkunar, þarna er að rísa orkuver með tilheyrandi byggingum, gufulögnum o.s.fr. þannig að það að halda því fram, að háspennulínan hafi úrslitaáhrif á upplifun ferðamanna er í meira lagi hæpin. Jarðfræðingurinn bendir mönnum á að ferðast um svæðið í þoku (hvaða þoku mætti ef til vill spyrja) og væntanlega er línan þá vart vandamál. Í lok greinarinnar segir að HS hf hafi sjálf komið sér í tímahrak og má vel vera að svo sé, í því umhverfi sem við störfum í. Það eru samt sjö og hálft ár síðan vinna hófst við undirbúning og vinnu við mat á umhverfisáhrifum og öflun leyfa og efumst við stórlega um að sú vinna endi nokkurntíma, enda hagsmunamál nokkuð margra að orkufyrirtæki o.fl. aðilar sem taldir eru fjársterkir séu endalaust látin vinna rannsóknir og skýrslur af öllum gerðum. Að lokum er rétt að taka fram, að það sem Náttúruverndarsamtök Íslands kalla framsýni er ekki framsýni í augum allra. Að okkar mati jaðrar það oftar en ekki við öfugmæli og líkist miklu, miklu frekar skammsýni og þröngsýni að okkar mati.   

”Vaxandi ferðaþjónusta á utanverðu Reykjanesi”

HS hf leggur eins og áður hefur komið fram mikinn metnað í að í orkuverinu verði aðstaða sem verði aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem þá um leið komi til með að njóta náttúru svæðisins. Umhverfisslysið (samkvæmt núgildandi lögum) Bláa lónið er skilgetið afkvæmi orkuvinnslunnar í Svartsengi og er fjölsóttasti ferðamannastaður á landinu. Við gerum ekki ráð fyrir slíkum fjölda á Reykjanesi en það er ekki tilviljun að helstu hagsmunaaðilar, sveitarfélögin á svæðinu, horfa mjög til framkvæmda HS hf sem eina af forsendum vaxandi ferðaþjónustu. Þessir aðilar, sem hafa einna mestu hagsmunina, hafa ekki áhyggjur af áhrifum línubyggingarinnar á ferðaþjónustu. Það er hinsvegar vart tilviljun að þeir sem hæst hafa um neikvæð áhrif eru þeir sem mótmælt hafa nánast öllum framkvæmdum á Íslandi hin síðari ár.
   
 “Heilbrigðisfulltrúi, svæðisleiðsögumaður, stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum”
 
Í þeim frumskógi sem ganga þarf í gegnum við byggingu orkuvers (a.m.k. 15 mismunandi leyfi) koma víða að málum lög- eða hefðbundnir umsagnaraðilar. Einn af þessum umsagnaraðilum er viðkomandi Heilbrigðiseftirlit og í okkar tilviki þá Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja. Framkvæmdaaðili verður að eiga þá eðlilegu kröfu að hlutlægt sé tekið á málum, umsagnir snúist um það sem er sérsvið viðkomandi umsagnaraðila og forsenda þess að viðkomandi er beðinn um umsögn en ekki allt annað. Umsagnir Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hafa vakið okkur hjá HS hf nokkra furðu, en eftir lestur greinarinnar í Vikurfréttum þykjumst við sjá skýringuna. Það virðist nokkuð ljóst að umsagnir Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja (sjá dæmi hér að neðan) eru í meginatriðum skrifaðar frá sjónarhól stjórnarmanns í Náttúruverndarsamtökum Íslands og svæðisleiðsögumanns á Reykjanesi en embætti heilbrigðisfulltrúa komi þar lítið við sögu. Að mati HS hf er þarna um misnotkun á aðstöðu að ræða sem viðkomandi yfirvöld verða að taka á hið allra fyrsta.

Úr umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja:
“Til þess að hægt sé að meta sjónræn áhrif sem skyldi þyrfti að útbúa gagnvirk þrívíð tölvulíkön sem sýna sjónræn áhrif á helstu leiðum um svæðið, þ.m.t. á akstursleiðinni frá Stömpunum að Gunnuhver, frá Gunnuhver að Valahnúki og á gönguleiðinni frá bílastæðinu við Valahnúk upp á hnúkinn.”

Hvað hefur þetta með Heilbrigðiseftirlit að gera ??

Reykjanesbæ 5. júlí

Júlíus Jónsson
Forstjóri Hitaveitu Suðurnesja hf

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024