Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Forsendur núverandi meirihluta sveitarstjórnar Voga út úr korti
Fimmtudagur 13. október 2011 kl. 17:32

Forsendur núverandi meirihluta sveitarstjórnar Voga út úr korti

Núverandi meirihluti sveitarstjórnar Voga hefur byggt afstöðu sína um að háspennulínur þær sem Landsnet hyggst reisa skuli leggja í jörð að stórum hluta á greinargerð Almennu verkfræðistofunnar (AV) sem gerð var í mars 2008, eins og meðal annars kemur fram í frétt RÚV í kvöldfréttum sjónvarps, 11. október sl. Landsnet mótmælti strax á þeim tíma forsendum sem lagðar voru til grundvallar landverði í skýrslu AV og hvernig það var nýtt með margföldunaráhrifum til að lækka kostnaðarmun á milli háspennulína í lofti annars vegar og hins vegar háspenntra jarðstrengja. Hinn 17. október 2008 gerði sveitarfélagið Vogar tímamótasamkomulag við Landsnet um skipulagsmál er vörðuðu háspennulínur Landnets í sveitarfélaginu. Við gerð þess samkomulags voru aðilar sammála um að ekki kæmi til greina að leggja til grundvallar þær forsendur sem AV gaf sér í sinni greinargerð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Marklaus greinargerð

Greinargerð AV var gerð á þeim tíma þegar verðbóla fasteigna á suðvesturhorni landsins var í hámarki og hefur hún ekki verið endurskoðuð eftir efnahagslegt hrun í október 2008 sem hafði afgerandi áhrif á fasteignarverð til lækkunar. Þegar af þessari ástæðu er greinargerðin marklaus þegar kemur að samanburði á kostnaði framkvæmda við háspennulínur eða jarðstrengi. Hitt er þó alvarlegra að sú aðferðafræði sem byggt er á í greinargerðinni stenst ekki skoðun og hefur aldrei gert.

Í greinargerð AV er farið yfir nokkrar forsendur Landsnets um fyrirhugaðar háspennulínur í landi Voga. Fram kemur að talið sé að stofnkostnaður jarðstrengja sé almennt verulega meiri en loftlína eða um 2 til 9 falt meiri miðað við sömu rekstarspennu á bilinu 145-400 kV. Í niðurlagi greinargerðarinnar kemur fram að kostnaðarsamanburður AV á jarðstreng og loftlínu sé í stórum dráttum svipaður og fram kemur hjá Landsneti, að öðru leyti en því að landverð sé ekki tekið með í reikninginn hjá Landsneti. Þetta er ósönn fullyrðing og var leiðréttingu þegar komið á framfæri við AV vorið 2008.

Flutningskerfi Landsnets heyrir til stofnþátta í innviðum íslensks samfélags og því hvíla á fyrirtækinu lögbundnar skyldur við uppbyggingu þess. Hér svipar um margt til við framkvæmdir Vegagerðarinnar. Einstök framkvæmd, bæði í vegagerð og við háspennulínur, nær um langan veg, snertir fjölda landeigenda með sambærilegum hætti og kallar eftir samræmingu aðalskipulags fleiri en eins sveitarfélags. Í báðum tilvikum hvíla almannahagsmunir að baki og sökum þess að hér er um mannvirki í almannaþjónustu að ræða er greidd eingreiðsla við upphaf framkvæmda, í tilviki Landsnets fyrir réttindi af landi undir flutningsvirki. Með þessu er tryggt að ekki skapist óvissa síðar um réttarstöðu slíkra mannvirkja sem líta verður á sem eind þótt þau liggi um land margra og ólíkra aðila. Munur á háspennulínum og þjóðvegum er þó sá að landeigandi getur haft margvísleg afnot af því landi sem liggur undir háspennulínum þótt heimild til bygginga sé takmörkuð.

Við undirbúning framkvæmda sinna leggur Landsnet ríka áherslu á að meta aðstæður allar, þ.m.t. það verð sem áætla má að sé markaðsverð á framkvæmdasvæðinu. Hér er farið eftir hefðbundnum eignarréttarreglum en um framkvæmdir Landsnets hafa skapast fordæmi með úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta og dómum Hæstaréttar um afmörkun áhrifa af framkvæmdunum og bætur til landeigenda. Á síðastliðnum árum hefur Landsnet lokið við framkvæmdir við Sultartangalínu 3 (sem er 125 km að lengd) og Fljótsdalslínur 3 og 4 (sem eru hvor um sig 52 km að lengd), sem vörðuðu samtals meira en 50 jarðir og rúmlega 10 sveitarfélög. Lauk öllum málum nema þremur með samningum við landeigendur en af þeim þremur sem lauk með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta var einu skotið til Hæstaréttar þar sem dómur féll Landsneti í vil. Nær hefði verið að AV hefði stuðst við þessa aðferðafræði við ákvörðun á landverði.

Í stað þess að miða við sambærilegar forsendur um landverð í sveitarfélaginu Vogum og Landsnet gerir ráð fyrir í sínum áætlunum er í forsendum AV landverð miðað við 500 kr./fm sem upphafsverð (á árinu 2009) eða 5 m. kr. fyrir hvern hektara lands. Í forsendunum er einnig gert ráð að landverð u.þ.b. tólffaldist á 40 árum, m.a. er gert ráð fyrir 30% hækkun landverðs fyrsta árið og svo fer hlutfallið lækkandi þannig að verðhækkunin er mjög brött í upphafi eða sem svarar 150% hækkun landverðs á fimm árum. Að gefnum þessum forsendum og fleirum er fundið út að núvirtur heildarkostnaður af loftlínu (verðlag 2008) sé rúmlega 174 m. kr. samanborið við tæplega 247 m. kr. fyrir 1 km. af jarðstreng. Þannig er fundið út að kostnaðarhlutfallið sé 1,4 í stað 5-7 sinnum meiri eins og Landsnet hefur bent á.


Forsendur AV byggja ekki á raunverulegu mati

Hvergi hefur hins vegar komið fram að í skýrslu AV er gerður sá fyrirvari að tölur um landverð byggi ekki á raunverulegu mati og undirstrikuð er mikil óvissa varðandi þróun þess til lengri tíma. Niðurstaða AV felur ekki í sér annað sjónarmið í raun en að hlutfall kostnaðar milli framkvæmda við háspennulínu og jarðstreng minnkar eftir því sem landverð er hærra. Það þarf þó að vera mjög hátt ef kostnaðarmunur nemur aðeins 1,4 og auðvelt er að misskilja málið. Þannig fellur fréttastofa RÚV í þá gildru í framangreindri frétt sinni að taka framkvæmdakostnað við Suðvesturlínuverkefnið, 27 milljarða króna og margfalda þá tölu með stuðlinum 1,4 og þá fæst út 38 milljarðar króna. Þetta er hins vegar ekki rétt. Háspennulínur eru einungis hluti heildarkostnaðar verkefnisins, og aðeins sá þáttur er til umræðu hér. Ef áætlanir Landsnets myndu ganga eftir yrði kostnaðurinn um 27 milljarðar, ef Landsnet legði hins vegar línurnar í jörðu yrði þessi kostnaður um 73 milljarðar, en ef tekið væri mið af mati AV á landverði myndi verkefnið eins og Landsnet setur það upp með loftlínum kosta um 55 milljarða.

Miðað við grunnforsendur AV um verðmæti lands á línuleiðinni væri heildarverðmæti 126 ha. jarðar í sveitarfélaginu Vogum alls rúmlega 630 m. króna. Á tímabilinu 2009-2013 eykst verðmæti jarðarinnar miðað við forsendur AV um alls tæpa 756 m. króna og verður verðmæti hennar eftir tvö ár því alls rúmlega 1,3 milljarðar króna. Þess má geta að jörð þessi hefur nú verið auglýst til sölu í tæpt ár án þess að seljast. Ásett verð er 45 milljónir króna.

Ef forsendur AV eru lagðar til grundvallar er verð 126 ha. í Vogum hærra en erlendur aðili hefur boðið fyrir 22.500 ha. eða 75% hluta í jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum, þótt landstærð í dæminu sé aðeins um 0,5% af stærð þess hluta Grímsstaða á Fjöllum sem er undir í þeim viðskiptum. Þá hefur Orkuveita Reykjavíkur nýverið selt jarðirnar Hvamm og Hvammsvík í Hvalfirði á 155 m. kr. Um 600 ha. lands er að ræða með góðum húsakosti en án hitaréttinda og er söluverð því um 260.000 kr. per ha. Þess má geta að Landsnet býður landeigendum í sveitarfélaginu Vogum hærra verð fyrir landsréttindi vegna háspennulínunnar og hefur þegar náð samkomulagi við bæði sveitarfélag og einstaklinga á svæðinu. Það verð er þó mjög langt frá 5 m. kr. á hektara.

Þá má nefna að við breikkun Reykjanesbrautar þurfti að taka töluvert landsvæði undir veg, en Landsnet hefur m.a. til hliðsjónar framkvæmdir Vegagerðarinnar þegar landverð er metið. Gera má ráð fyrir í landi Voga hafi vegalengdin verið um 17,5 km. og viðbótarvegsvæði allt að 30 metra breitt eða samtals 52,5 ha. lands miðað við þær forsendur. Miðað við forsendur AV hefði Vegagerðinni borið að greiða 262,5 m. kr. fyrir landsréttindi á árinu 2009 en 420 m. kr. væri verið að ráðast í framkvæmdina nú.


Lögbundnar skyldur

Skyldur Landsnets við uppbyggingu raforkukerfisins er lögbundnar. Það hefur þýðingu þegar sveitarfélög vega og meta þær framkvæmdir sem Landsnet óskar eftir að gert sé ráð fyrir í aðalskipulagi. Sveitarfélög geta ekki hafnað slíkum framkvæmdum af eigin vild eða breytt þeim, nema fyrir liggi lögmæt sjónarmið samkvæmt stjórnsýslurétti. Ljóst var fyrir gerð aðalskipulags sveitarfélagsins Voga að óskað var eftir því að Landsnet legði jarðstreng fremur en háspennulínu um land sveitarfélagsins. Við þeirri ósk gat Landsnet ekki orðið og getur ekki enn. Hins vegar gerðu Vogar og Landsnet með sér samkomulag 17. október 2008 sem markaði tímamót. Það fól í sér að háspennulínurnar yrðu reistar og þær mættu standa í a.m.k. 20 ár en ef forsendur breyttust verulega, svo sem að staðsetning línanna hamlaði fyrst og fremst íbúðabyggð á ákveðnu svæði, þá yrði kannað hvort unnt væri að leggja línurnar í jörð eða þær fluttar fjær byggð ef tilskilin leyfi fengjust. Hér reyndi Landsnet eftir fremsta megni að koma til móts við sjónarmið sveitarfélagsins í skipulagsmálum með hliðsjón af þeim lögum sem fyrirtækinu ber að starfa eftir. Sveitarfélagið tók með þessu samkomulagi málefnalega afstöðu til framkvæmda Landsnets og setti þær inn á aðalskipulag sitt sem gildir 2008-2028. Samkomulag þetta er í fullu gildi. Landsnet sendi Sveitarfélaginu Vogum fyrirspurn hinn 30. september sl. þar sem óskað er skýringa og rökstuðnings með ákvörðun meiri hluta bæjarstjórnar Voga sem tekin var miðvikudaginn 28. september sl. en með öllu er óljóst á hvaða lagagrundvelli hún hvílir. Svar hefur ekki borist þegar þetta er ritað.

Hlutverk Landsnets samkvæmt raforkulögum er að byggja raforkukerfið upp á eins hagkvæman og öruggan hátt og frekast er unnt. Til að svo megi verða er einkum horft til loftlínulausna, nema þar sem sérstakar áherslur ráða en þá eru jarðstrengslausnir skoðaðar. Mörg dæmi eru um slíkt. Í samkomulagi Landsnets við sveitarfélagið Voga var gert ráð fyrir því að slíkar lausnir yrðu skoðaðar ef byggðin færðist nær háspennulínum.


Hvernig er þessu háttað erlendis

Þjóðþing erlendis hafa mörg hver fjallað um jarðstrengjastefnu og hafa undantekningarlaust komist að þeirri niðurstöðu að háspennulínur skulu ekki lagðar í jörðu nema sérstakar ástæður liggi við. Er þetta gert þar sem samfélagsleg áhrif þessa eru svo mikil á raforkuverð almennings og samkeppnisaðstöðu smærri sem stærri orkunotenda. Ekkert þjóðþing hefur talið sig geta lagt slíkar byrðar á þegna sína vegna kostnaðar. Sérstaklega má hér benda á ákvarðanir norska Stórþingsins og meðferð norska eftirlitsaðilans um þessi mál, vilji fólk sjá hvernig á þessu er tekið erlendis. Einnig hefur Evrópusambandið ályktað um samanburð á loftínum og jarðstrengjum. Ástæða er til þess að benda áhugasömum um að kynna sér hina erlendu umræðu því þessi umræða er ekki bundin við Ísland. Eitt er þó víst að ekkert land hefur mótað þá stefnu að línur á hæstu spennum verði lagðar í jörðu. Stefna Landsnets hvað varðar jarðstrengi er fyllilega sambærileg því sem gert er erlendis.

Sá aukakostnaður sem jarðstrengslögn í sveitarfélaginu Vogar (um 17 km kafli) hefði í för með sér samsvarar um þremur nýjum Vestmannaeyjarferjum eða nýjum Vaðlaheiðargöngum.


Lokaniðurstaðan er þessi:

Ef sveitarfélög á svæðinu gera kröfu um að framkvæmdin fari í jörð og knýja fram skipulagsbreytingu þess efnis er ljóst að Landsnet mun stöðva framkvæmdir – framkvæmdir sem hafa verið undirbúnar á lögbundinn hátt með mati á umhverfisáhrifum og að uppfylltum skipulagsforsendum. Landsnet mun ekki taka ákvörðun um að leggja línurnar í jörðu nema Alþingi Íslendinga móti slíka stefnu.

Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets.