Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Formaðurinn leiðréttur
Miðvikudagur 6. febrúar 2008 kl. 10:58

Formaðurinn leiðréttur

Ég undrast skrif Kristjáns Gunnarssonar í síðasta tölublaði Víkurfrétta. Í grein sinni segir hann m.a: „Eina stóra tækifærið í augsýn er að álver Norðuráls rísi sem fyrst í Helguvík.“ Þetta er beinlínis rangt og skyldi maður ætla að sá sem er formaður bæði Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis og Starfsgreinasambandsins, ætti að vera betur að sér um atvinnumál svæðisins en skrif hans bera vitni. Margt annað í grein formannsins orkar tvímælis en í stað þess að elta ólar við það hér og nú bið ég lesendur um að taka tilvitnaða grein hans með verðskulduðum fyrirvara.

Hundruðir starfa í augsýn
Þvert á svartnættið sem setur mark sitt á skrif formannsins þá eru fjölmörg tækifæri í augsýn hér á Suðurnesjum. Fram hefur komið að gert sé ráð fyrir því að það þurfi að ráða um 200 manns til fjölbreyttra starfa þegar áformað hótel við Bláa lónið hefur verið byggt. Talverðan fjölda iðnaðarmanna þarf fyrst við bygginguna sjálfa. Nú stendur yfir umhverfismat fyrir kísilverksmiðju í Helguvík og þar er gert ráð fyrir u.þ.b. 90 störfum, auk starfa á byggingartima verksmiðjunnar. Þá er í gangi metnaðarfull uppbygging Keilis á Keflavíkurflugvelli og er áætlað að á næstu 3-5 árum muni þar verða til 4-5.000 manna háskólasamfélag. Ætla verður að það þurfi nokkur hundruð manns til þess að þjónusta þann byggðakjarna. Þá eru viðræður í gangi um netþjónabú á Keflavíkurflugvelli en þar yðru til 150 störf eða svo. Á undanförnum árum hafa orðið til 60-70 ný störf á ári í tengslum við flugþjónustuna á Keflavíkurflugvelli. Haldi sú þróun áfram gæti starfsmönnum á flugvallarsvæðinu fjölgað sem nemur u.þ.b. mannaflaþörf eins álvers á næstu fjórum til fimm árum. Ekkert bendir til þess að það sé að hægja á vextinum á Keflavíkurflugvelli og nýlega kannaði Icelandair Group hagkvæmni þess að byggja nýja flugstöð þar, sem einnig myndi skapa ný störf.
Hér að ofan voru talin upp hugsanleg ný störf sem gróflega samsvara starfsmannafjölda u.þ.b. þriggja álvera. Þá eru ótalin svokölluð afleidd störf og störfin sem verða til ef félagið Suðurlindir virkjar til þess að byggja upp atvinnulíf í Vogum, Grindavík og Hafnarfirði. Þó sum þessara starfa séu ekki föst í hendi þá blasa tækifærin við og ekkert bendir til þess að kreppa sé framundan.

Er álver í augsýn?
Skoðum aftur setningu formannsins: „Eina stóra tækifærið í augsýn er að álver Norðuráls rísi sem fyrst í Helguvík.“ Fátt bendir til þess að álver sé í augsýn. Almenn andstaða er um áformaða orkuflutninga og hafa sveitarfélögin hvert á fætur öðru hafnað tillögum Landsnets í þeim efnum. Við stofnun Suðurlinda var því lýst yfir að orkan yrði notuð í sveitarfélögunum sem að félaginu standa. Þar með er u.þ.b. 40% þeirrar orku sem Norðurál ætlaði sér ekki lengur í boði fyrir álver í Helguvík. Landsvirkjun hefur lýst því yfir að ekki verði samið um orkusölu til nýrra álvera og að óreyndu tel ég útilokað að ný borgarstjórn lofi Orkuveitu Reykjavíkur hlaupa undir bagga með þau 200 MW, eða svo, sem uppá vantar. Við þetta bætist að Norðuráli var hafnað um losunarheimildir enda er vandséð að álver í Helguvík samræmist markmiðum ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
Að öllu samanlögðu virðast minni líkur á því að álver í Helguvík líti dagsins ljós en að þorri þeirra hundruða starfa sem ég taldi upp hér að ofan verði að veruleika. Áður en hugarórar um álverið verða að raunverulegri ógn við náttúruperlur Reykjanesskagans þaf að útvega orku, tryggja flutningsleiðir og fá losunarheimildir. Fátt bendir til þess að það muni takast.

Bergur Sigurðsson,
framkvæmdastjóri Landverndar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024