Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar fer með fleipur
Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins.
Fimmtudagur 28. febrúar 2019 kl. 06:00

Formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar fer með fleipur

Tilefni þessarar greinar er að leiðrétta staðlausa stafi sem formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, Friðjón Einarsson, kemur á framfæri við blaðamann VF þann 21. febrúar sl. í frétt sem ber yfirskriftina „Engin kísilversskoðunarferð framundan“. Í fréttinni er haft eftir formanninum að undirrituð hafi sagt að meirihlutinn væri að senda átta bæjarfulltrúa til vinarbæjarins Kristiansand í Noregi meðal annars til að skoða kísilver. 

Rétt er að taka það fram að ég minnist aldrei á kísilver í þessu sambandi. Það er hugarburður formannsins, sem segir síðan að gagnrýni mín sé ekki svaraverð. Það er umhugsunarefni ef formaður bæjarráðs telur það ekki svaravert ef kjörinn fulltrúi skuli gagnrýna kostnað bæjarins upp á tvær milljónir króna vegna ferðar bæjarfulltrúa og starfsmanna til Noregs.

Public deli
Public deli

Sjálfsagt og eðlilegt er að heimasækja vinabæ en þarf að senda átta manns í þessa ferð? Kostnaður fyrir hvern einstakling er um 250 þúsund krónur. Er ekki nóg að senda t.d. þrjá einstaklinga? Margsinnis hefur verið bent á það að gæta verði ýtrustu ráðdeildarsemi í fjármálum bæjarins vegna skuldastöðu.

Ég vil minna á í þessu sambandi að tillaga mín í bæjarstjórn um að styrkja foreldrafélög grunnskólanna í Reykjanesbæ til þess að allir nemendur í 8.–10. bekk gætu séð myndina „Lof mér að falla“ var felld af meirihlutanum vegna kostnaðar. Myndin hefur mikið forvarnargildi. Auk þess felldi meirihlutinn tillögu mína um systkinaafslátt af skólamáltíðum vegna kostnaðar. Á sama tíma og Hjálparstofnun Kirkjunnar greiðir skólamáltíðir fyrir fjölmörg börn í Reykjanesbæ í viku hverri.

Til glöggvunar læt ég hér bókun mína á umræddum bæjarstjórnarfundi fylgja með.
„Það er hreint með ólíkindum að senda þurfi átta embættismenn bæjarins til þess að kynna sér þessi mál. Þetta er fjáraustur úr bæjarsjóði og vel væri hægt að koma kostnaðinum niður í 750.000 kr. færu einungis þrír aðilar. Sýna verður ráðdeild á öllum sviðum í rekstri bæjarins og eru utanferðir embættismanna og kjörinna fulltrúa einn partur af því. Minna má á að dagpeningar eru greiddir í svona ferðum og eru þeir skattfrjálsir og mál líta á þá sem kaupauka viðkomandi embættismanna.“

Eins og sjá má er hvergi minnst á kísilver í bókuninni og augljóst að það sem haft er eftir formanni bæjarráðs þess efnis eru fleipur einar.

Margrét Þórarinsdóttir,
bæjarfulltrúi Miðflokksins í Reykjanesbæ.