Forgangsröðun í þágu barnafjölskyldna
Hornsteinn í stefnu jafnaðarmanna er að styðja við börn og barnafjölskyldur, að tryggja jöfnuð og skapa fjölskylduvænt samfélag. Því þegar allt kemur til alls er það fjölskyldan – velferð hennar og heilbrigði – sem er eitt það mikilvægasta í lífi sérhvers einstaklings.
Þrátt fyrir að fjölskyldugerðin hafi á undanförnum áratugum tekið miklum breytingum, hafa grunnþarfir fjölskyldna lítið breyst. Allir einstaklingar þurfa stuðning frá fjölskyldu sinni og það veitir okkur fátt meiri ánægju en að sjá fjölskyldumeðlimi vaxa og þroskast. Hlutverk ríkisins á að vera að veita öllum foreldrum aðstoð við framfærslu yfir það tímabil þegar útgjöld eru hvað hæst og að jafna stöðu tekjulægri fjölskyldna þannig að börn búi ekki við fátækt eða skerta möguleika til að stunda nám og tómstundastarf.
Til að sátt og stöðugleiki geti ríkt þurfa fjölskyldur að búa við öryggi. Stuðningur við barnafjölskyldur er eitt mikilvægasta úrræðið sem ríkið hefur til að bæta lífskjör og draga úr fátækt barnafjölskyldna og er um leið stjórntæki við útfærslu á fjölskyldustefnu hins opinbera á hverjum tíma.
Samfylkingin er nú sem fyrr í fararbroddi fyrir bættum kjörum fjölskyldufólks og telur rétt að gera róttækar kerfisbreytingar á styrkjum til barnafjölskyldna. Jafnframt vill Samfylkingin hækka framlög til málaflokksins. Núverandi barnabótakerfi er bæði flókið og nær einungis til lágtekjufjölskyldna og þrátt fyrir allt þá býr hluti foreldra með lágar tekjur eftir sem áður við skertar barnabætur. Við slíkt er ekki hægt að una. Samfylkingin vill að stuðningur við barnafjölskyldur taki annars vegar mið það því að jafna framfærslukostnað milli heimila sem hafa börn á framfæri og annarra og hins vegar að stuðningsgreiðslurnar jafni stöðu fjölskyldna sem hafa lágar tekjur.
Með því að forgangsraða opinberum styrkjum í þágu barnafjölskyldna og koma upp almennu styrkjakerfi sem byggir á barnagreiðslum sem ná til allra foreldra en ekki einungis þeirra tekjulægstu munu lífsgæði barnafjölskyldna aukast. Bætt stuðningskerfi munn svo aftur skila sér í betra og áhyggju minna samfélagi öllum til gagns.
Viktor Stefán Pálsson,
sviðsstjóri hjá Matvælastofnun, formaður Ungmennafélags Selfoss og 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.