Forgangsröðum rétt
eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi
Síðastliðin tæp fjögur ár höfum við fengið að upplifa af eigin raun hversu mikilvægt er að hafa forystufólk í landinu sem skilur mikilvægi einstaklings- og atvinnufrelsis. Núverandi ríkisstjórn setti sér háleit markmið frá fyrsta degi, er hún tók við völdum. Sum voru góð og atvinnulífi og heimilum til hagsbóta, en önnur voru þess eðlis að augljóst var að þau myndu skapa ágreining. Stjórnmálamenn sem setið höfðu lengi í stjórnarandstöðu ætluðu sko heldur betur að sýna fram á að þeirra tími væri kominn! Þegar ástæða fyrir árangursleysi þessarar ríkisstjórnar er skoðuð, blasir skýringin við. Hugmyndafræðileg barátta þeirra fyrir umdeildum gælumálum varð ofan á og mikilvæg mál eins og skuldamál heimila og uppbygging atvinnulífsins komust ekki að. Þetta er röng forgangsröðun.
Eftir rétt rúmlega 100 daga verður tími þessarar ríkisstjórnar endanlega liðinn. Þá skiptir máli að hér taki við ríkisstjórn sem setur heimilin í landinu og atvinnusköpun í forgang. Með samstöðu þarf að ná fram sátt í skuldamálum heimila, sem felur það í sér að heimili með verðtryggð lán sitji ekki ein eftir með sinn forsendubrest. Sérfræðingar deila enn um aðferðirnar við það, hvort verðtrygging skuli tekin af, hvort flatur niðurskurður gildi, hvort skattaleiðir skuli valdar o.s.frv.. Ég segi: Það er ekki heimilanna að þurfa að skera úr um leiðirnar. Það er stjórnvalda að vinna að lausn málsins og hafa forystu um að koma henni í framkvæmd. Til þess erum við kosin!
En þar með er skuldavandi heimila ekki úr sögunni. Við þurfum lausnir til framtíðar sem tryggja það að sama vandamál endurtaki sig ekki og að áhættan af verðbólguskotum sé ekki einhliða á heimilum eins og nú er.
Ráðstöfunartekjur heimila þurfa einnig að aukast og það umfram verðbólgu. Það gerum við annars vegar með því að vinda ofan af skattahækkunum ríkisstjórnarinnar á fólk og fyrirtæki, auk þess að gera fyrirtækjum kleift að skapa aukin verðmæti, þannig að innistæða sé fyrir kauphækkunum. Ráðast þarf á atvinnuleysið og skapa aukna atvinnu í einkageiranum. Tækifærin eru fjölmörg eins og við sjálfstæðismenn höfum ítrekað bent á. Við þurfum að hafa ríkisstjórn sem vill nýta þau!
Ég treysti því og fullyrði að við sjálfstæðismenn erum undir það búin að leiða næstu ríkisstjórn. Markmið þeirrar ríkisstjórnar verður að forgangsraða í þágu fjölskyldnanna í landinu og byggja hér upp hagsæld að nýju. Við þurfum að tryggja unga fólkinu okkar atvinnutækifæri sem eru samkeppnishæf við tækifæri ungs fólks í nágrannaþjóðunum og við þurfum að búa eldri borgurum okkar áhyggjulaust ævikvöld.
Það er rétt forgangsröðun.