Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Forgangsmál að bæta kjör eldra fólks
Föstudagur 9. september 2016 kl. 06:00

Forgangsmál að bæta kjör eldra fólks

- Aðsend grein frá Ásmundi Friðrikssyni

Ég vil gera það að forgangsatriði að við bætum kjör þeirra sem lakast standa í hópi eldra fólks og öryrkja. Með nýjum lögum kenndum við Pétur Blöndal um almannatryggingar eru tekin skref sem koma til móts við þær kröfur sem settar hafa verið fram en baráttan verður alltaf að standa vörð um þá sem lökust hafa kjörin. Með Péturslögunum verður mikil réttarbót með einföldun kerfisins, minni skerðingum vegna tekjutenginga en tryggja þarf að hóflegar fjármagnstekjur innan hóflegra marka skerði ekki bætur. Nýsamþykkt frumvarp um greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu þar sem gert er ráð fyrir því að frá og með næstu árumótum greiði enginn meira en sem nemur 60 þúsund krónum á ári í læknis- og sjúkrakostnað er heljarstökk inn í framtíðina í bættum hag allra. Þetta er gríðarlega stórt mál ekki síst eldra fólk og öryrkja sem mest nýta sér þjónustu heilbrigðiskerfisins. Næsta skref er að taka lyfjakostnaðinn inn í greiðsluþátttökuna. Sjúkrarýmum er að fjölga á Suðurlandi en það er ákall eftir uppbyggingu hjúkrunarheimilis í Þorlákshöfn, breytingu á tvíbýli í einbýli og stækkun á Höfn svo ærin verkefni eru til að berjast fyrir.

Heilsa og heilbrigði
Ég er þó áhugasamastur um tækninýjungar í heimaþjónustu sem við verðum að innleiða á næstu árum og svo stóra áhugamálið mitt um „Heilsu og heilbrigði“ eldri borgara sem ég tekið þátt í að kynna með Janusi Guðlaugssyni. Þar eru ekki aðeins tækifæri fyrir eldra fólkið heldur er það ljóst að með því að leggja meiri rækt við heilsu og heilbrigði fólks sparast gríðarlegar upphæðir í heilbrigðiskerfinu og lífsgæði þess mun aukast til muna sem er stærsti vinningurinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aukum atvinnuþátttöku
Ég vil kanna hvort það gæti aukið atvinnuþátttöku eldra fólks að lækka tryggingagjaldið á 67 ára og eldri sem gerði þann aldurshóp eftirsóknarverðari af atvinnulífinu. Á sama hátt þarf þá að skoða að ávinningur þeirra af atvinnuþátttöku skili sér í launaumslagið og skerðingar éti ekki upp ávinninginn. Það blasir við á næstu árum skortur á hverskonar fagmenntuðu fólki og ég velti fyrir mér hvort breytingar eins og ég bendi á gætu lengt atvinnuþátttöku reyndasta og besta fagfólksins sem nú er jafnvel að láta af störfum uppúr sextugu sem er auðvitað sóun á hæfileikum, reynslu og þekkingu sem þjóðfélagið þarf svo mikið á að halda.

Ég berst fyrir kjörum eldra fólks og öryrkja
Sannarlega horfir margt til betri vegar, tugmilljarða raunaukning á kjörtímabilinu til velferðamála er staðreynd, kaupmáttur eykst, tollar lækka, vörugjöldin fallin út, verðlag er stöðugt og svigrúm ríkisins til að gera betur vex. Það svigrúm verður að nota til að bæta hag eldra fólks og öryrkja, það er verkefnið sem ég mun beita mér fyrir að krafti fái ég stuðning til áframhaldandi setu á Alþingi. Þá er mikilvægt að bætur verði sömu og lágmarkslaun ekki síðar en 2018 eða 300 þúsund krónur, einfalda greiðslukerfið, auka þátttöku í lyfjakostnaði, gleraugna – og heyrnatækjakostnaði og auka framboð á ódýru leiguhúsnæði.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið brjóstvörn þessa fólks og það reiðir sig á að forysta flokksins bæti kjör þess. Ég mun standa vörð um hagsmuni eldra fólks sem á skilið þakklæti frá okkur fyrir lífsstarfið sem er undirstaða velmegunar þjóðarinnar í dag og ég mun vinna að því að skapa almenna hagsæld og ánægju í daglegu lífi eldra fólks og öryrkja.

Ásmundur Friðriksson
alþingismaður