Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 14. janúar 2003 kl. 14:13

Foreldrarölt á skólatíma?

Oftar en einu sinni hef ég spurt mig af því hvernig við getum tengt betur saman heimili og skóla. Ég tel að ein leiðin gæti verið sú að koma af stað foreldrarölti/skólaheimsóknum á skólatíma. Hið hefðbundna foreldrarölt sem tíðkast hefur í mörgum bæjarfélögum hefur í flestum tilvikum farið þannig fram að nokkrir foreldrar koma saman á föstudagskvöldi, ganga um bæinn og fylgjast með ástandinu “niðri í bæ”. Á undanförnum árum hefur dregið verulega úr því að börn/unglingar safnist saman niður í bæ og hangi þar fram eftir nóttu. Sömuleiðis hefur virkni og áhugi foreldra fyrir foreldrarölti farið minnkandi.Röltum innan um börnin okkar.
Ég minnist þess að eitt árið á fundi foreldrafélags, heyrði ég stjórnarmann segja frá því að hann hefði hringt eitt kvöldið í yfir 50 foreldra í leit af einhverjum sem væri til í að fara á röltið þetta kvöld. Oftar en ekki fékk hann spurningu frá þessum foreldrum um “hvort hann ætlaðist virkilega til þess að viðkomandi myndi yfirgefa barnið sitt sem væri heima og fara að ganga um bæinn í leit af öðrum börnum?” Á sama fundi minnist ég þess að foreldri lýsti yfir áhyggjum sínum með ástandið á skólalóðinni í frímínútum. Hann líkti þessu sem stríðsástand. Sjálfur hef ég oft verið á ferðinni í kringum skólana á skólatíma og get ekki tekið undir með þessa samlíkingu. En vissulega hljóta einhverjir árekstrar að verða á öllum skólalóðum þegar hundruð skólabarna eru þar við leik og aðra iðjum. Hver kannast jú ekki við það að til árekstra komi inn á heimilum þar sem eru jafnvel bara tvö eða þrjú börn að leik.

Styrkjum tengsl okkar við skólann.
Ég velti hér upp þeim möguleika að foreldrar taki sig saman og fari á röltið í frímínútum. Þar myndu þeir upplifa með hvaða hætti börnin í skólanum verja frímínútum (úti og inni). Nærvera fullorðinna skapar líka öryggi og aga meðal barna. Slík heimsókn gæti síðan endað með því að “sníkja” kaffisopa hjá starfsfólki skólans og jafnvel með heimsókn í kennslustofuna þar sem kennsla og nám er í fullum gangi. Hér væri e.t.v.. um 30 – 60 mín. heimsókn að ræða. Það starfsfólk grunnskólanna sem ég þekki, er fólk sem er gott heim að sækja. Það viðmót sem ég hef mætt í skólum bæjarins hefur verið þess eðlis að ég hlakka alltaf til þess að koma aftur í heimsókn.
Vinahópar foreldra gætu tekið sig saman og heimsótt skólann eða bekkjarfulltrúarnir gætu skipulagt svona rölt Í hvert skipti gætu t.d. foreldrar 3-5 barna komið í heimsókn. Það veitir fólki stuðning að vera nokkur saman og skemmtilegar umræður skapast oft um tiltekin mál. Auðvitað geta þeir sem ekki eru bekkjarfulltrúar tekið af skarið, en þá væri ágætt að hafa bekkjarfulltrúa með í ráðum. Það kann vel að vera að stjórnir foreldrafélaganna hafi áhuga á að koma einhverri útfærslu af slíkum skólaheimsóknum í gagnið. Það er þeirra að ákveða það. Hægt væri að skipuleggja þetta á ársgrundvelli t.d. með því að hver bekkjardeild tæki að sér “manna” tvær vikur. Almennt held ég að vinnuveitendur séu tilbúnir að leyfa starfsmönum sínum að taka þátt í foreldrastarfi í um 30-60 mínútur á ári og því ætti vinna foreldra ekki að vera mikil hindrun.
AUKIN gæði í starfi hjá samtökum, félögum eða hópum felast í því að gera meira en (lágmarks) kröfur tilgreina. Það er afar mikilvægt að hópar/samtök sitji ekki að bíði eftir því hvað “aðalstjórnir” geri eða segi, heldur sýni frumkvæði séu óhrædd við að velta upp hugmyndum og gera tilraunir.
Ég varpa þessari hugmynd fram því ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að þetta sé eitthvað sem vert sé að skoða í einhverri útgáfu. Þarna myndu foreldrar heimsækja skólana á öðrum forsendum en að vera boðaðir í viðtal. Kannski er þetta eitthvað sem skólarnir sjálfir gætu tekið upp af eigin frumkvæði? Tækifærin okkar eru fjölmörg til þess að efla enn frekar tengsl okkar við skólann. Oft segjum ið að víða séu tækifæri. Ég held hins vegar að flest séu þau að finna í okkur sjálfum.

Jóhann B. Magnússon
Áhugamaður um gott samstarf heimila og skóla.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024