Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Foreldrar styðja kjarabaráttu kennara
Mynd tekin á baráttufundi kennara á Suðurnesjum í víkunni.
Föstudagur 25. nóvember 2016 kl. 06:00

Foreldrar styðja kjarabaráttu kennara

- Aðsend grein frá formönnum foreldrafélaga í Reykjanesbæ

Kæru kennarar,
Við, foreldrar, þekkjum, líkt og þið tilfinninguna sem fylgir vorinu. Skólinn fer í sumarfrí og við horfum glöð fram á álagsléttari daga með engu heimanámi, takmörkuðum heimalestri og bara almennu fríi.
Að sama skapi þekkjum við, þessir sömu foreldrar, gleðina sem fylgir haustinu, með rútínunni sem við erum búin að þrá síðan um miðjan júlí. Börnin okkar komast aftur niður á jörðina og við getum aftur farið að barma okkur yfir skipulagsdögunum!

Við, foreldrar sendum frá okkur þessa grein í dag því að ástandið sem upp er komið í kjarabaráttu kennara kristallast í einu orði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dapurlegt.

Ástandið er dapurlegt... en það er lýsingarorð á frumstigi.

Eins og allir aðrir landsmenn þá gengum við í skóla og þáðum kennslu, fræðslu og leiðsögn frá kennurum, sem eins og þið, létu sér annt um menntun, velgengni og vellíðan okkar. Við höfum, líkt og aðrir, orðið fyrir áhrifum frá kennurum sem snertu á lífi okkar og með einum eða öðrum hætti stýrðu því í þann farveg sem það er í, í dag.


Samfélagið treystir kennurum
Við treystum kennurum fyrir því sem er okkur kærast. Börnunum okkar. Við treystum kennurum fyrir menntun barnanna og við treystum kennurum fyrir velferð þeirra á hverjum degi.
Hvers virði eru kennarar og það sem þeir leggja til samfélagsins? Hvers virði er grunnurinn sem er lagður að framtíð barnanna okkar? Við teljum það morgunljóst að við getum ekki sett verðmiða á framtíð þeirra. Það eina sem við vitum er að okkur þykir hún vera ansi dýrmæt og viljum að okkar börn njóti leiðsagnar færustu fagmanna, færustu kennara, sem völ er á.
„Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ er íslenskur málsháttur sem við rifjum upp þegar við horfum á bak einhverju sem við hefðum svo gjarnan viljað eiga eða hafa lengur. Því miður virðist stefna í að við, samfélagið, fáum að upplifa þetta á eigin skinni.

Fréttir af fjöldauppsögnum kennara berast nú daglega. Hver veit hvaða fréttir við fáum í kvöld? Fréttir sem þessar gera ástandið dapurlegra.

Dapurlegra... Það er sama lýsingarorð og áður, nú á miðstigi.
Það er dapurlegra en orð fá lýst að fólkið sem við treystum fyrir framtíðinni, fyrir menntun barnanna okkar, skuli ekki hafa laun sem tekur mið af þeirri menntun og ábyrgð sem fylgir starfinu.
Við, foreldrar á Suðurnesjum, skorum á samninganefndir að semja við grunnskólakennara. Við skorum á ráðamenn sem ákveða fjármagn til menntamála að standa við öll fögur orð sem hafa fallið um mikilvægi þessa starfs, um mikilvægi þess að halda í hæfasta fólkið í kennslu, um það hversu mikilvægt er að ábyrgð í starfi endurspeglist í launum.

Dapurlegast -sama lýsingarorð, nú á efsta stigi- væri nefnilega ef við missum hæfileikaríku kennarana okkar í önnur störf. Við skorum á og óskum eftir að það verði séð til þess að íslensk æska, börnin okkar, fái að njóta þeirra ómældu hæfileika sem býr í mannauðinum sem er samankominn hér í dag.

Við, foreldrar, sýnum kennurum stuðning í kjarabaráttu þeirra. Við viljum að þeim sé sýnd sú virðing sem þeir eiga skilið og förum fram á að þeim séu greidd laun í samræmi við menntun og ábyrgð.

Laun sem við getum verið stolt af að þeir þiggi fyrir vinnu sína.

Formenn Foreldrafélaga allra skóla í Reykjanesbæ