Foreldrar og lýðræði
Lýðræðisleg aðkoma foreldra að skólastarfi er mikilvæg í nútíma samfélagi. Við sem störfum í foreldrafélögunum í Reykjanesbæ eigum greiðan aðgang að skólaráðum hvers skóla, Fræðsluráði Reykjanesbæjar, Samtakahópnum og landssamtökum foreldra, Heimili og skóli.
Það er ýmislegt sem foreldrar geta gert til að hafa meiri áhrif innan skólasamfélagsins. Það er hægt að vera bekkjar- eða skólaráðsfulltrúi, vera í stjórn foreldrafélagsins og starfa með FFGÍR. Án foreldrafélaganna er ekkert FFGÍR án virkra foreldra eru engin virk foreldrafélög.
Í gegnum starf mitt hjá FFGÍR kynnist ég áhugasömum foreldrum sem leita stöðugt leiða til að efla skólasamfélagið í Reykjanesbæ. Í Reykjanesbæ eru sex grunnskólar með tæplega 2.100 nemendur. Á bak við nemendur eru foreldrar með mismunandi bakgrunn, áhugamál, hæfileika og lífsskoðanir. Allir foreldrar eru ábyrgir fyrir því að börnin:
* komi í skólann á réttum tíma
* ljúki við heimavinnu
* séu södd og úthvíld
* sýni háttvísi og kurteisi alla daga
* beri virðingu fyrir starfsfólki og skólasystkinum
* gangi vel um námsbækur
* hafi tiltekin gögn, vasareikna og pennaveski
* séu með létta skólatösku
* séu snyrtileg til fara og hrein
Kennarar bera ábyrgð á að mennta nemendur og stuðla að alhliða þroska þeirra með fræðslu, uppeldi og þjálfun. Samkvæmt siðareglum kennara þá ber þeim að hafa samvinnu við forráðamenn eftir þörfum og gæta þess að upplýsingar sem þeir veita forráðamönnum séu áreiðanlegar og réttar.
Á morgun þriðjudaginn 15. febrúar bíður FFGÍR skólaforeldrum á námskeið. Á námskeiðinu fjallar Helga Margrét Guðmundsdóttir um lýðræðislega aðkomu foreldra að skólastarfinu og hvernig foreldrar geta haft áhrif á nám og líðan barna sinna. Helga Margrét er sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Hún starfaði hjá landssamtökum Heimilis og Skóla í mörg ár og hefur látið sig varða uppeldis- og menntunarskilyrði barna. Helga hefur einnig skrifað pistla og greinar um fjölskyldumál en hún er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt.
Fyrir sjö árum hélt FFGÍR sambærilegt námskeið þá mættu 100 foreldrar. Námskeiðið verður haldið í Kirkjulundi þriðjudaginn 15. febrúar kl.20.00 og eru allir skólaforeldrar velkomnir.
Enginn aðgangseyrir.