Foreldrar eru bestir í forvörnum
Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi barna sinna og menntun fram að 18 ára aldri en foreldrahlutverkið er margþætt og stundum flókið. Það er afar mikilvægt fyrir foreldra að fylgjast með líðan barnanna sinna og eiga við þau góð samskipti. Rannsóknir hafa sýnt að stuðningur og viðhorf foreldra skiptir miklu máli þegar kemur að námsárangri, líðan og forvörnum gegn áfengis-og vímuefnaneyslu. Unglingar sem upplifa umhyggju og aðhald frá foreldrum sínum gengur gjarnan betur í skóla og tileinki sér frekar heilbrigðan lífsstíl.
Eftir því sem börnin eldast höfum við tilhneigingu til þess að missa sjónar af því sem börnin okkar aðhafast. Þá er stundum talað um að slaka á taumnum en ekki sleppa enda mikilvægt að foreldrar haldi áfram að leiðbeina börnum sínum, sýna viðfangsefnum þeirra áhuga og setja þeim skýr mörk. Börn og unglingar líta upp til foreldra sinna og hegða sér gjarnan í takt við væntingar sem til þeirra eru gerðar. Viðhorf foreldra og væntingar geta því skipt sköpum fyrir velferð barna þeirra.
Foreldrar geta þannig tekið þátt í að efla forvarnir og styðja við barnið í uppvextinum en samskipti foreldra og skóla hafa jákvæð áhrif á allt skólastarf og ávinningur er aukið sjálfstraust nemenda, betri líðan í skóla, aukinn áhugi og bættur námsárangur.
Við minnum á erindi í Akademíunni 5. mars kl: 17-19 fyrir foreldra barna 13-18 ára. Sérfræðingur frá Rannsóknum og greiningu mun fara yfir þætti sem snúa að líðan barna okkar og verkefnastjóri frá Heimili og skóla fjalla um mikilvægi foreldra í forvörnum og 18 ára ábyrgð.
Verkefnastjórar FFGÍR
Anna Hulda og Anna Sigríður