Fölsk viðvörun
Pétur Jóhannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, skrifar.
Átak við hreinsun smábátahafnarinnar í Gróf í Keflavík hefur staðið yfir í sjö mánuði, þegar loks kom að því að Landvernd, sem sér um fánaveitinguna, var reiðubúið að afhenda Bláfánamerkið til merkis um hreinleika hafnarinnar. Sumarið 2013 var gengið frá frárennslislögnum sem legið höfðu í höfnina og útilokaði að öll óhreinindi bærust þangað tengd frárennslislögnum. Gengið hafði verið frá öðrum þáttum sem tilheyra veitingu bláfánans sem snúa að öryggi og umhverfi fyrir notendur smábátahafnarinnar, eins og ílát fyrir hættuleg efni, úrgangsolíur, slökkvibúnað við olíudælu o.fl.
Dagsetningin var tilkynnt í fjölmiðlum og til stóð að fagna þessum umhverfisáfanga með lítilli samkomu, þar sem öllum bæjarbúum ásamt stjórnendum bæjarins og hafnarinnar var boðið til athafnarinnar auk fulltrúa Bláa hersins, Tómasi Knútssyni.
Íbúi í nágrenni hafnarinnar, Styrmir Barkarson, reynist hafa hringt inn til Landverndar degi fyrir auglýsta athöfn, þar sem viðurkenningin skyldi afhent, og tilkynnti um saur í höfninni. Landvernd varð að bregðast við með því að hafna afhendingu Bláfánans og fresta afhendingu þar til niðurstaða úr sjávarsýnatöku lægi fyrir. Enginn annar virðist hafa orðið var við þessi óhreinindi. Sýnatakan hefur nú leitt í ljós að höfnin sé tær og hrein nánast án saurgerla og langt innan allra eðlilegra marka.
Þetta er ekkert ólíkt því að tilkynna sprengju í flugstöðinni, sem reynist vera uppspuni. Við slíkum tilkynningum þarf þó alltaf að bregðast. Umhverfissamtök er hyggjast veita viðurkenningu verða því að bregðast alvarlega við tilkynningum af því tagi er barst frá Styrmi eins og Landvernd gerði í þessu tilviki. Hins vegar er það alvarlegt mál að misnota umhverfissamtök á þennan hátt, þótt viðkomandi hafi horn í síðu núverandi stjórnar Reykjanesbæjar.
Bláfáninn er eftirsóknarverð viðurkenning, sem staðfestir hreinleika og öryggi smábátahafna. Mikilvægast er þó að við íbúar Reykjanesbæjar eigum snyrtilega og góða smábátahöfn eins og Grófin er í dag. Óska öllum til hamingju með þennan áfanga sem Bláfáninn er.
Pétur Jóhannsson,
hafnarstjóri Reykjaneshafnar.