Fólk vill finna fyrir öryggi
Mig langar að gera grein fyrir mínum högum þar sem ég sækist eftir 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkjöri. Sambýliskona mín og ég eigum tvo syni og fjárfestum í okkar fyrsta húsnæði árið 2007 með verðtryggðum íbúðalánum eins og þorri Íslendinga. Ég starfa sem lögreglumaður hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum ásamt því að stunda laganám við Háskólann í Reykjavík. Ég er fæddur og uppalinn í Skagafirði. Mín uppvaxtarár starfaði ég við almenn sveitastörf og átti eigin atvinnurekstur. Einnig hef ég alla tíð verið virkur í félagsmálum, m.a. verið forseti nemendafélagsins og sat fjögur ár í stjórn Landssambands lögreglumanna.
Umhverfi okkar og þau verkefni sem á vegi okkar verða hafa áhrif á viðhorf og hæfileika okkar. Lífshlaup mitt hefur gefið mér víða sýn á lífið, ég hef upplifað fjölbreyttar aðstæður fólks í gegnum störf mín og orðið vitni að aðstæðum sem nauðsynlegt er að breyta. Við getum öll verið sammála um að öflugt atvinnulíf sé grunnurinn að velferð heimilanna. Þessi atvinnuuppbygging þarf að fara fram út um allt land, ekki bara á höfuðbogarsvæðinu. Því þarf að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem eru hvar sem við stígum niður fæti. Að mínu viti er mikilvægt að á þing veljist fólk sem sér hvar þessi tækifæri liggja og er reiðubúið að standa með fólkinu við nýtingu þeirra. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að tækifærin verða ekki nýtt nema fólk fáist til að búa á þeim svæðum þar sem þau er að finna og því fólki sé veitt það frelsi og sköpuð sú umgjörð sem gerir þeim kleift að nýta þau.
Lykillinn að því að þetta gangi allt saman upp er að fólk finni fyrir öryggi. Við höfum lítið að gera með atvinnutækifæri, skuldaleiðréttingar og bættan fjárhag ef við finnum fyrir óöryggi. Grunnþjónustan er því einn allra mikilvægasti hlekkurinn í því uppbyggingarstarfi sem framundan er. Við verðum að efla löggæsluna, heilsugæsluna, samgöngurnar og menntakerfið. Þannig verður sveitin okkar blómleg í komandi framtíð. Þessum málaflokkum hef ég kynnst vel í þeim störfum sem ég hef fengist við, þá sérstaklega löggæslunni en öll þekkjum við hversu alvarleg staðan er í löggæslumálum í Suðurkjördæmi.
Það er mín von að ég fái að heyra í ykkur sem flestum á komandi vikum og fái tækifæri til að ræða við ykkur um þau fjölmörgu tækifæri sem eru til staðar og hvernig við getum nýtt þau sem best.
Vilhjálmur Árnason, lögreglumaður